Bréf vegna einstaklingsmerkja
Reykjavík, 19.08.2003.
Háttvirtu nautgripabændur!
Hér berst ykkur í hendur pöntunareyðublað vegna einstaklingsmerkja. Eins og flestum er eflaust kunnugt, þá skulu allir kálfar sem koma í heiminn frá og með 1. september n.k. og settir verða á, vera merktir skv. ákvæðum reglugerðar 463/2003 um merkingar búfjár, innan 30 daga frá burði.
Á eyðublaðinu koma fram forprentaðar upplýsingar um búið og eiganda/umráðamann þess. Bændur eru vinsamlegast beðnir að yfirfara þær upplýsingar og leiðrétta, ef þær reynast rangar.
Á merkjunum, sem framleidd verða af Os Husdyrmerkefabrikk í Noregi (http://www.husdyrmerke.no/), er að finna eftirtaldar upplýsingar: YD sem eru einkennisstafir Embættis yfirdýralæknis; IS sem eru einkennisstafir Íslands; Búsnúmer, sem er 6 stafa landnúmer úr Fasteignamati ríkisins og 1 stafs númer (1-9), til auðkenningar ef fleiri en einn aðili stundar búskap á sama landnúmerinu; 4 stafa hlaupandi gripanúmer (0001-9999).
Lögð skal rík áhersla á mikilvægi þess að velja rétt upphafsnúmer. Á þeim búum sem númera gripina, er það næsta númer á eftir því númeri sem yngsti gripurinn á búinu ber. Dæmi: ef yngsti núlifandi kálfurinn á búinu ber númerið 250, þá er upphafsnúmerið 251. Ef ætlunin er að setja á 20 kálfa á næstu 12 mánuðum eða svo eru pöntuð 20 merki. Bóndinn fær þá í þessu tilfelli í hendur númeraröðina 251-270.
Á þeim búum þar sem gripir eru ekki númeraðir með neinum hætti, er mönnum í sjálfsvald sett hvert upphafsnúmerið er. Það er þó vart heppilegt að byrja á 1, þar sem allir nautgripir skulu vera merktir frá 1.1.2005. Best er því að hafa rými fyrir eldri gripi í númeraröðinni, byrja t.d. núna á 20 og panta þann merkjafjölda sem samsvarar ásetningi næsta árið eða þar um bil.
Þeim bændum sem hafa hug á að panta stök merki í núlifandi gripi á búunum, er bent á að það krefst grunnskráningar á þeim hluta gripanna sem ekki eru komnir í framleiðslu. Skrá verður upplýsingar (númer grips, kyn, fæðingardag, fæðingarbú og ætterni) um t.d. kvígur og naut sem eru í uppeldi. Farið er fram á að beðið verði með slíkar pantanir fram á haustmánuði.
Mælt er með því vinnulagi við merkingarnar, að kálfar séu merktir áður en upplýsingar um þá eru skráðar. Skráning skýrsluhaldara verður með lítt breyttu sniði á mjólkurskýrslunni. Þeir sem utan skýrsluhaldsins standa skulu skrá lögboðnar upplýsingar (skv. 7. gr. reglugerðar um merkingar búfjár) í sérstaka hjarðbók sem Embætti Yfirdýralæknis útvegar. Hjarðbók þessa verður einnig hægt að fá hjá búnaðarsamböndunum. Með merkjunum fylgir skýringarmynd, sem sýnir hvernig og hvar heppilegast er að staðsetja merkið í eyra gripsins.
Eigandi einstaklingsmerkingarkerfisins, sem hlotið hefur heitið MARK, er Landbúnaðarráðuneytið. Bændasamtök Íslands eru þjónustuaðilinn og sjá um smíði og viðhald gagnagrunna sem halda utan um kerfið. Eftirlit með einstaklingsmerkingunum er síðan í höndum Embættis Yfirdýralæknis.
Verð á merkjum ásamt tilheyrandi kostnaði, er áætlað 240 – 280 kr. á merki án virðisaukaskatts. Hægt er að greiða með gíróseðli, kreditkorti eða láta draga upphæðina af beingreiðslum vegna mjólkurframleiðslu. Verð á ísetningartöngum er um 2100-3000 krónur. Það skal tekið fram að tangir frá Allflex í Danmörku sem víða eru til er hægt að nota áfram, þrátt fyrir að merkin komi frá Os í Noregi. Uppbygging merkja frá þessum tveimur framleiðendum er mjög svipuð.
Pöntunareyðublaðið á að senda útfyllt í meðfylgjandi svarumslagi til Bændasamtaka Íslands, Bændahöllinni v/Hagatorg, 107 Reyjavík, eða með faxi á 562 3058. Einnig er hægt að senda umbeðnar upplýsingar í tölvupósti á mark@bondi.is, sem allra fyrst. Þeir aðilar sem hafa nýlega hætt að halda nautgripi eru einnig beðnir um að skila inn eyðublaðinu, með upplýsingum þar að lútandi. Pöntunareyðublaðið verður framvegis hægt að nálgast hjá búnaðarsamböndunum og héraðsdýralæknum, einnig af vefsíðu Bændasamtaka Íslands, www.bondi.is.
Nánari upplýsingar veita Baldur H. Benjamínsson, bhb@bondi.is, s. 867 3902, Gunnar Guðmundsson, gg@bondi.is, s. 563 0333 og Maríanna H. Helgadóttir, mhh@bondi.is, s. 563 0331.
Virðingarfyllst,
Baldur Helgi Benjamínsson
Nautgriparæktarráðunautur BÍ