Tölvukerfið MARK
Tölvukerfið MARK er á Netinu á slóðinni www.bufe.is. Kerfið heldur utan um einstaklingsmerkingar nautgripa og flutningssögu þeirra.
Fyrir nautgripabændur
Allir nautgripabændur eiga möguleika á að fá aðgang að MARK svo fremi þeir séu tengdir Netinu. Með aðgangi að MARK geta bændur m.a. pantað einstaklingsmerki beint á Netinu. Undir valliðnum „hjarðbók“ er jafnframt unnt að nýskrá gripi, skrá burð og flutningssögu gripa. Á næstunni bætist við sjúkdómaskráning í umsjón héraðsdýralækna.
Samtenging við eldri kerfi
Við hönnum á MARK var rík áhersla lögð á samtengingu gagna milli núverandi kerfa, þ.e. MARKs, Ískýr og skýrsluhaldsgagnagrunns Bændasamtakanna. Þetta tryggir að bændur þurfa ekki að skrá sömu upplýsingar oftar en einu sinni. Þannig hefur verið lögð mikil vinna í samræmingu gagna en gera má ráð fyrir einhverjum hnökrum í byrjun og biðjum við bændur um að koma ábendingum um misræmi í gögnum til Bændasamtakanna eða búnaðarsambanda. Notendur Ískýr halda áfram skráningu skýrsluhaldsupplýsinga þar eins og áður.
Aðgengi að skýrsluhaldsgögnum
Þátttakendur í skýrsluhaldi nautgriparæktarfélaganna fá aðgang að skýrsluhaldsgögnum sínum í MARK. Allir gripir sem eru í framleiðslu koma fram í búslista. Að auki eiga að vera inni allir þeir kálfar sem fæðst hafa síðan 1.september og hafa fengið númer í samræmi við þau númer sem pöntuð voru.
Þeir skýrsluhaldarar sem senda inn handskrifaðar mjólkurskýrslur er bent á að skrá allar upplýsingar um gripi sem eru í uppeldi í MARK ef kostur er á. Hér er átt við m.a. ef gripur er seldur, keyptur eða slátrað. Þetta á einungis við gripi sem fæddir eru eftir gildistöku reglugerðarinnar þ.e. frá og með 1. september 2003. Skráning eldri gripa skal koma fram á innsendum mjólkurskýrslum eins og áður.
Merkjapantanir
Pöntun á merkjum þarf alltaf að skrá í MARK. Upplýsingar um eldri pöntuð merki má finna í kerfinu.
Aðgangur
Til að fá aðgang að MARK þarf að hafa samband við tölvudeild Bændasamtakanna eða viðkomandi búnaðarsamband. Einnig má senda tölvupóst á netfangið bufe@bondi.is með upplýsingum um nafn, kennitölu, bæjarheiti og póstnúmer. Bændur fá þá sendan veflykil í pósti. Þessi veflykill er notaður þegar bændur nýskrá sig inn í kerfið í fyrsta sinn í gegnum www.bufe.is.
Kerfið er unnið fyrir landbúnaðarráðuneytið og eftirlitsaðili þess er Matvælastofnun. Það er þróað af tölvudeild Bændasamtaka Íslands og byggir á reglugerð um einstaklingsmerkingar nr. 463/2003.