Broddmjólk í smákálfa
Viðnámsþróttur nýfæddra kálfa gegn smitsjúkdómum er fyrst og síðast kominn undir broddmjólkinni þar sem mótefni gegn þeim er ekki að finna í blóði kálfanna fæðingu. Fái kálfurinn of lítinn brodd eru um tífalt auknar líkur á því að hann drepist.
Broddmjólk úr fyrstu mjöltum er mjög rík af mótefnum en innihaldið fellur mjög hratt eftir burð.
Þarmaveggur smákálfa er aðeins móttækilegur í um 24 tíma eftir fæðingu til að hleypa mótefnunum viðstöðulaust inn í blóðrás en eftir það tekur fyrir þessa beinu upptöku. Því er varlegast að:
- Koma um 2-3 lítrum af broddmjólk í nýfædda kálfa – í allra seinasta lagi 6 tímum eftir fæðingu.
- Veikburða kálfum verður að hjálpa sérstaklega.
- Kálfum sem ganga með mæðrum ber einnig að gefa broddmjólk sérstaklega. Það hefur sýnt sig að um 1/3 hluti slíkra kálfa fær ekki nógan brodd.
- Gefið kálfinum 4-6 lítra af broddi á fyrsta sólarhring en síðan eftir lyst í um fjóra sólarhringa (2 x 2,5 lítrar á dag).
Ekki ætti að nota broddmjólk úr kúm með júgurbólguvandamál eða úr kúm sem eru byrjaðar að leka fyrir burð. Þess í stað verður að leita í aðrar kýr eða í brodd-mjólkurbanka búsins.
Broddbanki
Broddmjólk má geyma í kæliskáp mest um eina viku eða í frosti allt upp í ár. Frystingin á ekki að hafa teljandi áhrif á gæði mótefnanna. Frystið broddinn í hentugum eins lítra umbúðum sem flýta bæði frystingu og afþýðingu. Afþýðið brodd í vatnsbaði sem ekki er heitara en 40°C. Hitastig umfram 40 gráður getur skaðað mót-efnin í broddinum, sama er að segja um afþýðingu í örbylgjuofni. Hitastig á kálfamjólk við gjöf skal vera á bilinu 35-40°C. Efnivið í broddbankann ætti helst að taka úr hraustum eldri kúm (þar sem þær eru á annað borð til m.v. meðallíftíma í framleiðslu), heilbrigðum kúm almennt og aðeins brodd úr fyrstu mjöltum.
Notið bankann þegar:
- Nýbæran gefur of lítinn brodd (ber fyrir tíma).
- Kýr leka fyrir burð og/eða eru mjólkaðar fyrir burð.
- Kýr hafa fengið of stutta geldstöðu (innan við 5 vikur).
- Kýr eru með júgurbólgu.
- Mikið blóð fylgir fyrstu broddmjólk.
- Kýr eru keyptar að búi innan við 6 vikum fyrir burð.
Pétur Halldórsson
(Håndbog i kvæghold/Landbrugsforlaget).