Efnainnihald mjólkur og rúlluverkað fóður
Efnainnihald mjólkur og rúlluverkað fóður
Jóhannes Hr. Símonarson
Búnaðarsambandi Suðurlands
Efnainnihald mjólkur ræðst af töluverðu leyti af fóðrun eins og bændur vita þó aðrir þættir skipti vissulega miklu máli s.s. erfðir og umhverfi. Hér er aðeins talað um rúlluverkun þar sem hún er orðin ráðandi heyverkunaraðferð íslenskra bænda.
Áður en að meginefninu kemur eru þó nokkur grundvallaratriði í fóðurfræðum sem öllum kúabændum nauðsynlegt að vita.
Efnainnihald fóðurs (þurrefni) skiptast í fjóra meginflokka; kolvetni, prótein, vítamín og steinefni. Þegar kolvetni (orka) eru melt eru þau fyrst brotin niður í einingar, svo nefndar sykrur sem eftir flóknum leiðum eru notaðar til að knýja áfram líkamsstarfssemina. Próteinhluti fóðursins er einnig brotinn niður í sínar einingar, svo nefndar amínósýrur, sem síðan er raðað aftur saman til að búa til ný prótein, hvort heldur er til vaxtar/viðhalds á líkamanum eða til myndunar mjólkurpróteins. Hvernig amínósýrurnar raðast saman ræður því hvernig próteingerðin verður. Til að búa til prótein úr amínósýrunum þarf orku og orkan fæst úr kolvetnahluta fóðursins eða sykrum eins og glúkósa, frúktósa og galaktósa. Glúkósi er heppilegastur en sú sykra er mjög orkurík. Ef skortur verður á glúkósa eða hráefnum til glúkósamyndunar getur kýrin brotið niður amínósýrur til orkumyndunar, en amínósýrurnar nýtast þá ekki lengur til framleiðslu próteina. Framleiðsla mjólkurpróteins stjórnast af framboði amínósýra til júgursins og þeirri orku sem tiltæk er til að framleiðsluferlið geti átt sér stað. Flóknir lífeðlisfræðilegir ferlar kýrinnar stjórna því hvert hráefnunum er beint hverju sinni og þar með hver nyt og samsetning mjólkurinnar verður. Vítamín og steinefni eru einskonar hjálparefni í öllu þessu ferli og mjög nauðsynlegt að gæta að því að þau skorti ekki.
Nú er það svo að það sem að framan er sagt er allt mjög einfaldað. Til dæmis eru til auðleyst og torleyst prótein og er gripunum nauðsynlegt að fá hæfilega mikið af hvoru tveggja. Er þar með komið að meginefni þessa pistils, leysanleika próteinsins og hvaða áhrif bændur geta haft á þann hluta.
Rúlluverkun hefur í för með sér aukinn breytileika í heyfóðri þar sem þessi aðferð leyfir meiri sveigjanleika í sláttutíma og þurrkstigi grass við hirðingu. Í tilraun sem gerð var á Stóra-Ármóti og á Rala 1998-1999 var próteingildi rúlluheys miðað við mismunandi þurrkstig sérstaklega athugað og tilraunakýrnar á Stóra-Ármóti notaðar í rannsókninni (Bragi Líndal Ólafsson o.fl., 2000). Tilgangur rannsóknarinnar var fyrst og fremst að reyna að bæta þær niðurbrotstölur próteins sem hingað til hafa verið notaðar til að áætla AAT og PBV í fóðurmatsútreikningum á hey- og hirðingarsýnum.
Leysanleiki próteinsins stjórnast m.a. af þurrefnisinnihaldi, meltanleika þurrefnisins og próteininnihaldi. Í þessari tilteknu rannsókn kom í ljós að 91% breytileikans í niðurbroti próteinsins í vömbinni skýrist af þurrefnisinnihaldinu og þegar meltanleiki þurrefnisins er tekinn með skýrist alls 96% breytileikans. Í tilrauninni var hey af báðum sláttum forþurrkað á velli þar til fyrirfram ákveðnu þurrkstigi var náð við rúllun, eða 30, 45, 60 og >75% þurrefni.
Skoðum sérstaklega niðurbrotsferla í vömb fyrir prótein í vallarsveifgrasi þar sem hey var forþurrkað á velli uns þurrefnisinnihald var annars vegar rúmlega 30% og hins vegar yfir 80%. Við hærra þurrkstigið reyndist prótein í heyinu brotna niður og leysast upp jafnt og þétt í vömbinni í allt að sólarhring. Við lægra þurrkstigið var hætt við að próteinið tapaðist, nema að örverurnar hefðu aðgang að auðgerjanlegum kolvetnum til að nýta próteinið. Þeim mun blautari sem heyið í rúllunni er þeim mun meiri gerjun verður í heyinu. Það er því hætt við að saman fari niðurbrotið og uppleysanlegt prótein og skortur á auðgerjanlegum kolvetnum. Afleiðingarnar eru slæm nýting á próteini heysins, minni framleiðsla á örverupróteini í vömbinni og minna magn og óhagstæðara hlutfall milli rokgjarnra fitusýra sem myndast í vömbinni við frekara niðurbrot sykranna. Þeim mun meiri gerjun sem leyfð er í rúllunum þeim mun óhagstæðara verður heyið sem fóður fyrir t.d. mjólkurkýr, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar til að sjá kúnum á réttum tíma fyrir kjarnfóðri sem inniheldur að hluta auðgerjanleg kolvetni.
Ályktanir
Til að tryggja sem best góða nýtingu próteins í rúlluverkuðu heyi skyldi stefna að því að forþurrka á velli allt hey svo þurrefnisinnihald sé að lágmarki 60%.
Heimild:
Bragi Líndal Ólafsson, Tryggvi Eiríksson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Eiríkur Þórkelsson og Lárus Pétursson 2000. Próteingildi rúlluheys. Í: Ráðunautafundur 2000: 138-143.