Fóðuráætlanir

BSSL býður upp á fóðuráætlun í NorFor fóðurmatskerfinu
Reynsla þeirra þjóða sem mesta reynslu hafa af notkun NorFor-kerfisins (Dana, Norðmanna og Svía) er sú að fóðrun verður bæði markvissari og spara má verulegar fjárhæðir.
Til að hægt sé að gera fóðuráætlun í NorFor er nauðsynlegt að senda inn sýni sem gefa sem besta yfirsýn um það fóður sem á að nota til fóðrunar nú í vetur. Góð regla er að senda sýni úr fyrri slætti og annað úr seinni slætti, senda sýni úr rýgresi eða ef eitthvað sérstakt einkennir hluta fóðursins sem er til á bænum. Þá er hægt að flokka túnin niður í nýræktir og gömul tún og svo eftir því hvenær slegið er. Þannig má taka eitt sýni úr nýræktum sem eru slegnar á sama tíma og annað úr gömlum túnum sem slegin eru á sama tíma. Það eina sem þarf að hafa í huga er að sýnið samanstandi af einsleitu fóðri þ.e. túnum sem eru með svipaða tegundasamsetningu og svipað þroskuð. Þegar taka á eitt sýni sem á að vera lýsandi fyrir nokkur tún er mikilvægt að taka af fleiri en einu, blanda því í bala og taka samsýni sem er sent til greiningar.


Venjan á Íslandi er að taka hirðingarsýni en kostir þess að taka verkuð sýni eru að þá erum við með fóðrið sem líkast því ástandi sem það verður gefið, það á ýmislegt eftir að gerast í verkuninni sem við náum ekki höndum yfir ef tekin eru hirðingarsýni. Á það sérstaklega við um votheysverkun eða þegar rúllur eru verkaðar með lægra en 50-60% þurrefnisinnihaldi. Þegar senda á verkuð gróffóðursýni til efnagreininga þarf fóðrið að hafa verkast í 6-8 vikur. Við sýnatökuna er gott að miða við að taka úr a.m.k. 2-3 rúllum/böggum í hvert sýni og bora á 2-3 stöðum í hverja rúllu, bæði ofarlega og neðarlega. Þessu er svo öllu blandað saman og sýni tekið úr því. Í votheysstæðum er borað 5-7 sinnum, því blandað vel saman og sýni sent úr því. Þá er gott að miða við að taka eitt sýni úr hverri stæðu. Til þess að geta reiknað fóðuráætlun í forritinu þarf að hafa efnagreiningar á gróffóðrinu og þá dugir hefðbundin efnagreining ekki. Merkja þarf gróffóðursýnin NorFor svo þau fái þá viðbótargreiningu sem til þarf.


Þeir bændur sem hafa áhuga á að fá fóðuráætlun í NorFor er hvattir til að hafa samband við Hrafnhildi Baldursdóttur (hrafnhildur@bssl.is).

back to top