Maltaþjónninn og sumarbeitin

Mjaltaþjónninn og sumarbeitin

Útbreiðsla mjaltaþjóna er orðin veruleg víða erlendis og áhugi bænda á þessari tækni fer jafnt og þétt vaxandi. Útbreiddust er tæknin orðin í Hollandi, enda kom hún fyrst fram þar, þá Danmörku, Svíþjóð og Frakklandi. Í Hollandi eru nú um 600 kúabú með mjaltaþjóna og í hinum löndunum þremur eru þau á bilinu 250-320 í hverju landi.
Víða láta bændur sem nota mjaltaþjóna ekki kýrnar út á beit. Rök þeirra eru einkum tvenns konar; það kostar vinnu að þurfa að sækja kýrnar og nytin minnkar. Reyndin er þó sú að þetta er ekki alls kostar rétt samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem ESB fjármagnaði. Af þeim rannsóknum og/eða athugunum má sjá að hægt er að samhæfa mjaltir með mjaltaþjóni og beit ólíkt því sem margir, t.d. danskir og hollenskir, bændur hafa viljað meina.


Ekki marktækur munur á nythæð
Á fjórtán hollenskum kúabúum með mjaltaþjón var kannað hvort munur væri á nythæð á dag eftir því hvort kúnum væri beitt eða þær fóðraðar inni. Til jafnaðar minnkaði nytin um 2,5% við beitina en munur milli búa var allnokkur, frá því að nytin jókst um 3,1 kg niður í að hún minnkaði um 3,1 kg. Að meðaltali fækkaði mjöltum um 6% á dag ef kúnum var beitt, þ.e. mjaltatíðni féll úr 2,68 í 2,61 mjaltir á dag að meðaltali. Þessi munur er langt frá því að vera nægilega afgerandi til þess að hægt sé að álykta, hvað þá alhæfa, að beit henti ekki með mjaltaþjóni.


Beitarstykkin mega ekki vera of langt frá fjósi
Skiptir máli hversu langt er á beitarstykkið frá fjósinu? Þetta var kannað í fyrrgreindri rannsókn með allbreytilegum niðurstöðum sem þýðir að einhlít ráðgjöf þar að lútandi er erfið viðfangs.
Í Hollandi var þetta athugað á 25 búum 2002 og 2003. Fjarlægð á beitarstykkin frá fjósi var annað hvort minni en 150 m eða meiri en 500 m. Hvorugt árið var marktækur munur á nythæð, mjaltatíðni eða fjölda kúa sem sækja þurfti í mjaltir. Aftur á móti var áramunur á niðurstöðunum þannig að 2003 þurfti að sækja fleiri kýr í mjaltir en árið á undan og tími milli mjalta var að meðaltali lengri. Líklegustu skýringuna er að finna í mun á grassprettu og veðurfari.
Hins vegar sýndi sig að það skiptir máli ef verulega langt er orðið út á beitarstykkið (meira en 1 km). Þá fækkaði mjöltum á hverja kú á dag . Danskar rannsóknir hafa sýnt sömu eða mjög áþekkar niðurstöður.
Sænsk rannsókn sýndi aftur á marktækan mun á nyt, mjaltatíðni og beitartíma. Í henni var kúnum beitt á stykki, í annars vegar 50 m fjarlægð og hins vegar 260 m, þar sem niðurstaðan var því betri sem styttra var í beitina. Ef til vill skiptir máli í þessu tilviki að þar sem lengra var á beitina sáu kýrnar ekki stykkið um leið og þær komu út úr fjósinu heldur þurftu að beygja fyrir horn.
Af þessu má því draga þá ályktun að 400-500 m fjarlægð á beit skiptir engu eða mjög litlu máli eigi að beita kúnum samhliða því að mjólkað er með mjaltaþjóni. Lengri vegalengd getur hins vegar dregið úr mjaltatíðni og þar með nyt. Þetta gerir auknar kröfur til staðsetningar fjósa með mjaltaþjóna eigi að beita kúnum. Þau þurfa að vera sem mest miðsvæðis og aðgengi kúnna til og frá þeim að vera sem greiðast.


Ekki beita kúnum fyrir “morgunmjaltir”
Eitt stærsta vandamálið við að beita kúm sem mjólkaðar eru af mjaltaþjóni er að þær koma síður sjalfviljugar í mjaltir en þegar þær eru inni allan sólarhringinn. Athuganir sýna að því fyrr sem þær eiga að mjólkast að deginum því fleiri kýr þarf að sækja. Hins vegar borgar sig ekki að vera of fljótur til heldur gefa kúnum færi á að læra þetta sjálfar. Smátt og smátt venjast þær því að fara heim og láta mjólka sig.
Besta raun virðist gefa að stjórna umferð kúnna þannig að þær komist ekki út á beit fyrr en að loknum mjöltum að morgni. Sænskar og hollenskar rannsóknir hafa sýnt að frjáls umferð kúnna gefur færri mjaltir á kú á dag en stýrð umferð.


Gróffóðurgjöf með beitinni virðist ekki breyta nokkru um nyt eða mjaltatíðni. Í þessu tilviki er átt við gróffóður gefið inn á fóðurgang þannig að kýrnar þurfa að koma inn til að éta. Sé nóg framboð af grasi breytir engu hvort kýrnar hafa aðgang að gróffóðri eftir lyst eða hvort um takmarkað framboð er að ræða. Dragi úr beitarframboði skiptir gróffóðrið hins vegar orðið verulegu máli. Hins vegar er sjálfsagt að gefa ávallt gróffóður með beit, það dregur úr dægursveiflum þegar t.d. kýrnar beita sér illa eða lítið vegna veðurs. Það á við hvernig sem kýrnar eru mjólkaðar.


Umframafköst auðvelda beit
Þegar kýrnar eru á innstöðu dreifast mjaltir nokkuð jafnt yfir sólarhringinn. Þetta er öðruvísi þegar kýrnar fara út á beit, þá dreifast mjaltirnar mjög ójafnt yfir sólarhringinn. Þær kýr sem koma sjálfviljugar heim í mjaltir koma allar saman í hóp og við mjaltaþjóninn myndast röð. Það sama í við um þær kýr sem þarf að sækja. Þær koma einnig í hóp. Þetta þýðir að það er mjög erfitt að beita kúnum ef kúafjöldinn nálgast þau mörk sem mjaltaþjónninn annar án þess að það komi niður á mjaltatíðni og nyt. Umframafköst hjá mjaltaþjóninum þýða aftur á móti hið gagnstæða.


Takmörkun aðgengis að vatni breytir engu
Reynt hefur verið að tæla kýrnar heim í mjaltir með því að hafa einungis vatn í fjósinu en ekki úti á beitarstykkinu. Í fyrstu finnst manni þetta ekki hljóma vel, bæði út frá dýravelferð og svo mjólka kýrnar þeim mun minna sem þær drekka minna. Sænsk rannsókn sem hefur verið í gangi í tvö ár sýnir hins vegar að enginn munur er á hve mikið kýrnar drekka eða mjólka eftir því hvort aðgengi að vatni er einungis í fjósinu eða bæði í fjósinu og úti á beitinni. Það sem meira er að þrátt fyrir að kýrnar í rannsókninni kæmust ekki inn nema fara gegnum mjaltaþjóninn var enginn munur á mjaltatíðni. Það er því ekkert sem mælir með því að takmarka aðgengi kúnna að vatni til þess að lokka þær í mjaltir.


Mjaltatíðni stjórnast ekki af lengd beitartíma
Það getur verið mikill munur milli búa hve lengi kýrnar eru á beit. Í hollenskri rannsókn á 25 búum var kúnum skipt í þrjá flokka eftir lengd beitartíma á dag. Fyrsta flokknum var beitt í meira en 15 tíma á dag, öðrum í 11-15 tíma og þeim þriðja 5-11 tíma. Í samsvarandi danskri rannsókn var kúnum beitt í 5-20 tíma á dag.
Báðar þessar rannsóknir sýndu engan marktækan mun á beitartíma og mjaltatíðni.
Danska rannsóknin sýndi að því styttri tíma sem kýrnar hafa á beit því betur nýta þær hann til beitar. Þannig voru þær utandyra í allt að 85% af þeim tíma sem að opið var út á beitarstykkin. Í þeim flokkum þar sem beitartíminn var lengstur voru þær utandyra í 40-60% tímans að meðaltali. Þær héldu sig því jafnlengi inni til jafnaðar þrátt fyrir að eiga þess kost að vera utandyra.


Þýtt og staðfært af Guðmundi Jóhannessyni úr MånedsMagasinet Kvæg 5/2004.

back to top