Kvígusæðingar

Kvígusæðingar


Þorsteinn Ólafsson


Til þess að ná sem mestum framförum í ræktun kúastofnsins eru menn hvattir til þess að láta sæða kvígurnar sínar frekar en að halda þeim undir heimanaut. Það er meiri vitneskja um gæði sæðinganautanna og því líkur á að kvígukálfur undan sæðinganauti  verði betri kýr en kálfur undan heimanauti. Það er ekkert að því að  sæða kvígu með reyndu nauti sem gefur einhverja eiginleika sem má bæta í móðurætt kvígunnar. Sæðingarnar eru skráðar og þar af leiðandi er meiri vissa um væntanlegan burðardag kvígu sem er sædd. Undirbúningur undir burðinn getur því verið markvissari. Þá hefur komið í ljós að meiri hætta er á að kálfar undan heimanauti fæðist dauðir.


Af einhverjum ástæðum telja margir meira fyrir því haft að láta sæða kvígurnar, en að hafa naut í þeim, þó að þeim sé illa við að hafa ógelt naut í fjósinu.


Með góðri skipulagningu er hægt að gera kvígusæðingarnar sér auðveldar.


Það er mikilvægt að kvígur sem eiga að festa fang séu í góðu eldi. Á því verður stundum misbrestur þar sem kvígur hafa gengið úti langt fram á haust. Það eru dæmi þess að kvígur sem hafa sést beiða síðla sumars og snemma hausts hafi verið í svo mikilli aflagningu að þær hafi verið hættar að beiða og eggjastokkarnir orðnir óvirkir þegar þær eru teknar inn. Oftast er því um að kenna að þær eru orðnar ormaveikar á útibeitinni. Það getur því verið ærin ástæða til þess að gefa öllum kvígum ormalyf þegar þær eru teknar inn.


Ekki eiga að vera vandkvæði á því að sjá kvígur á lausagöngu beiða ef þær eru í stíu í fjósinu þar sem mjaltir og gegningar fara fram. Þá þarf aðeins að handsama kvíguna og panta sæðingu.


Þar sem kvígurnar eru í afhýsi eða sérsöku húsi getur verið skynsamlegt að láta samstilla nokkrar kvígur í einu. Þá eru kvígurnar sæddar á fyrirfram ákveðnum tíma,  auðvelt verður að fylgjast með uppbeiðslum og hægt er að láta fangskoða kvígurnar áður en tvö gangmál eru liðin frá sæðingu.


Það er mikilvægt að vanda til samstillingarinnar. Ég viðhef ákvðin vinnubrögð sem ég tel vera góð.


Það er í lagi að fara að sæða eðlilega þroskaðar kvígur þegar þær eru orðnar 15 mánaða og er æskilegt að búið sé að sæða kvígurnar þegar þær eru orðnar 20 mánaða. Úr því er hætta á að þær  fari að fitna og þá getur orðið erfitt að fá í þær tíma. Það kostar að ala kýr sem ekki mjólka svo það er eðlilegt að stefna að því að sem flestar kvígur séu bornar yngri en 30 mánaða.


Ég byrja á því að skoða kvíguhópinn sem er orðið tímabært að sæða. Ég athuga stöðu eggjastokkanna og fangskoða um leið. Í framhaldi af því ákveð ég hvort ég sprauta kvíguna með fyrri samstillingsprautu. Ég læt ekki sæða kvígurnar eftir fyrri sprautuna, en kem aftur eftir 11 til 13 daga. Þá athuga ég eggjastokkana aftur og sprauta aðeins þær kvígur sem ég er viss um að séu með virka eggjastokka. Kvígurnar eru sæddar tvisvar eftir 72 klst. (3 daga) og aftur efir 96 klst. (4 daga). Ég læt fóðra kvígurnar með góðu kúaheyi á þessu tímabili.


Eftir 5-6 vikur er hægt að fangskoða kvígurnar og þá getur verið gott að samstilla næsta kvíguhóp og þær kvígur sem af einhverjum ástæðum var hætt við að samstilla í fyrra skiptið.


Það er mikilvægt að forðast átök og stress þegar kvígur eru sæddar. Það er líklegt að hræddar og stressaðar kvígur haldi ver en kvígur sem eru rólegar. Þess vegna skiptir máli hvort kvígurnar eru vanar því að gengið sé innan um þær. Það er góður siður að spekja kvígurnar og þukla undir þær til þess að finna út hvort þær eru sognar. Sæðingamaðurinn á ekki að þurfa að bíða eftir því að kvígurnar sem á að sæða séu handsamaðar og alls ekki að þurfa að slást við kvígurnar.

back to top