Haustbeit sauðfjár

Þegar líða tekur að hausti er nauðsynlegt fyrir sauðfjárbændur að huga að haustbeitinni. Hvaða lömbum á að beita á grænfóðrið sem sáð var í vor og hve lengi á að beita þeim á það til að ná góðum bata í lömbin?

Próteininnihald beitargróðurs skiptir máli
Fjölmargar tilraunir með haustbeit lamba á grænfóður hafa sýnt fram á að lömb sem beitt er á grænfóður að hausti eru betur þroskuð en þau sem eru með mæðrum sínum á úthaga yfir haustið. Fallþungi þeirra er hærri, skrokkarnir flokkast betur og hafa hærri kjötprósentu án þess að fita aukist verulega. Af þeim grænfóðurtegundum sem hafa verið prófaðar hefur fóðurrepja (Brassica napus)  oft gefið mesta vaxtaraukann fyrir sláturlömb vegna þess að hún er auðmeltanleg og próteininnihald hennar er hátt. Prótein er einmitt aðalbyggingarefni vöðva og því ætti hlutfall vöðva að vera hærra í þungaaukningu lambanna en hlutfall fitu á repjubeitinni. Vaxtargeta lambanna er enn til staðar seinnipart sumars og í haustbyrjun en þau þurfa betra fóður en úthaginn getur boðið upp á til að vaxa.

Hugum að beitinni um miðjan ágúst
Úthaginn fer að falla um miðjan ágúst og til að fá ekki stöðnun í vöxt lambanna væri æskilegt að taka lömb af láglendisúthaga inn á grænfóður eða áborna há um miðjan ágúst. Ekki eiga þó öll lömb erindi á grænfóðurbeit og verður því að flokka lömb eftir þunga og þroska á beitina. Þau lömb sem koma vel þroskuð úr úthaga og koma ekki til greina sem ásetningur, ætti að koma í sláturhús sem fyrst. Góð leið til að flokka ásetningin frá strax er að láta ómmæla og stiga þau lömb sem koma til greina til ásetnings sem fyrst eftir þau koma af úthaga. Með þeim hætti er verið að velja bráðþroskuðustu einstaklingana til áframhaldandi ræktunnar stofnsins. Einstaklingar sem taka fyrr út þroska þurfa styttri eða enga bötun að hausti og er það því bæði ræktunarlegur og fjárhagslegur ávinningur að velja ásetningin áður en lömbin eru flokkuð á haustbeitina.

Flokkum lömbin á haustbeitina
Þegar lömbin koma af úthaga er góð regla að vigta þau og flokka á haustbeitina eftir vigt. Þau sem eru léttust fara á grænfóðrið, en þau sem þyngri eru fara annað hvort á háarbeit eða beint í sláturhús. Ef þetta er gert á hverju hausti samhliða því að velja ásetninginn fyrir bötun, fækkar þeim lömbum sem þarf að beita á grænfóður ár frá ári. Æskilegt er að bata lömb sem eru 34 kg eða léttari er þau koma af úthaga á grænfóðri í a.m.k. 4 vikur fyrir slátrun. Það tekur tíma fyrir lömbin að læra átið á grænfóðrinu og það tekur líka tíma fyrir líkamann að venjast nýju fóðri. Hæfilegur fjöldi lamba á hvern hektara af hæfilega sprottinni vetrarrepju er 60-90 lömb miðað við 50-75% nýtingu á repjunni og 5 vikna beitartímabil. Gott er að hafa áborna há eða úthaga með repjubeitinni til að auka fjölbreytileikan og draga úr hættu á kvillum er geta fylgt einhæfri kálbeit.

Bötun sláturlamba á húsi
Lenging sláturtímans á haustin fram í byrjun desember krefst þess að að bata verður sláturlömbin á húsi þar sem beitin er orðin slök. Þar koma lömbin á enn aðra fóðurgerð sem þau verða að venjast og til að ná einhverjum árangri verður að bata þau í a.mk. 4 vikur. Tilraunir með mismunandi framleiðslukerfi m.t.t. slátrunar í nóvember og desember hafa sýnt ágætan vöxt lamba eftir 6 vikur á innifóðrun. Kjarnfóður skilaði tiltölulega litlu umfram úrvalsgróffóður. Gimbrar fitnuðu óhóflega þegar leið að fengitíð en ekki geltu hrútlömbin sem voru í tilrauninni. Samkvæmt þessu ættu allar gimbrar sem eru ekki of léttar, að vera komnar í sláturhús í byrjun nóvember. Þær gimbrar sem eru of léttar á þeim tíma er möguleiki á að bata fram að páskaslátrun á úrvalsheyi. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum ætti að vera fýsilegra að gelda smáa hrúta í byrjun haustsins og bata þá fram í desember heldur en gimbrar.

Ítarupplýsingar
Upplýsingar um mismunandi grænfóðurtegundir, sáningstíma, áburðargjöf og vaxtardaga, er hægt að nálgast í Handbók bænda 2007, bls. 46-47. Ítarlegri upplýsingar um grænfóðurrækt er að finna í Handbók bænda 2002, bls. 30.

Þórey Bjarnadóttir
Sauðfjárræktarráðunautur BSSL

back to top