Reglur um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga
Verklagsreglur um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga
1. gr.
Samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007 og breytingu á honum frá 18. apríl 2009 skal árlega verja fjármunum til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda, í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Fjármunirnir eru hluti af liðnum “Nýliðunar- og átaksverkefni” í samningnum og miðast við 43,75% af fjárhæð hans eins og hún er hverju sinni.
Framlögin beinast að einstaklingum, þannig getur sami aðili aðeins notið framlags einu sinni, í eigin nafni eða til lögaðila sem hann á að meirihluta og rekur. Þó er heimilt að skipta framlaginu á allt að fimm ár í röð ef bústofnskaup fara fram á þeim tíma og/eða skilyrði 4. gr eru uppfyllt. Hjón og sambýlisfólk teljast einn einstaklingur í skilningi þessara reglna.
2. gr.
Framlög eru veitt til nýliða í sauðfjárbúskap. Þeir einstaklingar sem eitt eða fleiri neðangreindra skilyrða gilda um teljast ekki til nýliða: Skilyrðin í liðum a, b og c miðast við tímabil átta ár aftur í tímann talið frá 1. janúar árið sem umsókn er lögð fram í fyrsta sinn.
a) Verið skráðir handhafar beingreiðslna
b) Verið eigendur að félagsbúum, einkahlutafélögum eða öðru fyrirtækjaformi sem rekið hefur sauðfjárbú
c) Hafa átt fleiri en 50 fjár samkvæmt forðagæsluskýrslum.
3. gr.
Framlög eru veitt til bústofnskaupa og miðast við kaup á sauðfé umfram 50 fjár. Umsókn um framlag skal skila inn til Bændasamtaka Íslands fyrir 1. mars ár hvert, eftir auglýsingu þar um.. Bændasamtökunum er heimilt að auglýsa á sambærilegan hátt eftir umsóknum allt að tvisvar í viðbót ár hvert. Með umsókn skal framvísa gögnum sem sýna fram á að kaup á bústofni hafi sannanlega átt sér stað. Viðmiðunarupphæð framlags er 5.000 kr. á kind, en framlag má þó aldrei verða hærra en kaupverð. Heimilt er að hækka framlag á kind, ef fjárhæðin sem til ráðstöfunar er, gengur ekki út.
4. gr.
Þeir sem fengið hafa úthlutað styrk skv. 3. gr og sækja um aftur skv. 1. gr. geta sótt um sambærilegan styrk vegna fjölgunar í eigin bústofni. Eingöngu er þá heimilt að veita styrk út á þá fjölgun vetrarfóðraðra kinda sem umsækjandi sýnir fram á að hafi orðið vegna ásetnings úr eigin fjárstofni.
5. gr.
Bændasamtök Íslands annast afgreiðslu umsókna. Fullnægi umsókn öllum skilyrðum skal fyrst úthluta fullum framlögum til kaupa á fyrstu 500 kindunum skv. hverri umsókn. Ekki er þó greitt framlag vegna fyrstu 50 kindanna í hverjum kaupum, nema þegar framlaginu er skipt skv. 1. gr. Að því loknu skal úthluta sömu framlögum til kaupa á kindum umfram 500, eftir því sem fjárveitingar leyfa.
6. gr.
Gerður verður samningur um nýliðunarframlag. Þar skal koma fram að framlagið fyrnist á fimm árum. Láti handhafi að framlagi af búskap á samningstímanum skal semja um hlutfallsleg skil á eftirstöðvum.
7. gr.
Áður en framlag kemur til greiðslu skal umsækjandi sýna fram á að hann eigi eða leigi rekstur á lögbýli og eigi lögheimili þar. Jafnframt skal umsækjandi leggja fram gögn um að hann hafi ÍSAT númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein, virðisaukaskattsnúmer sem og gögn um að hann sé aðili að eða hafi sótt um aðild að gæðastýringu í sauðfjárrækt.
8. gr.
Komi í ljós að fjárveitingar dugi ekki til að veita full framlög til allra sem á þeim eiga rétt skv. reglum þessum skal fyrst skerða hlutfallslega framlög til kaupa á kindum umfram 500 sbr. grein 4. Nægi það ekki skal skerða önnur framlög á sama hátt. Ef ekki tekst að úthluta öllu því fjármagni sem er til ráðstöfunar, er heimilt að bæta upp skerðingar sbr. 1. mgr. allt að tvö ár aftur í tímann.
9. gr.
Þeir sem uppfylla skilyrði reglna þessara geta sótt um framlag skv. þeim vegna bústofnskaupa sem fram hafa farið allt aftur til 1. janúar árinu áður en umsókn er lögð fram. Jafnframt geta þeir sem fengið hafa styrki allt að fjórum sinnum áður, sótt um viðbótarframlag skv. ákvæðum 1. og 4. gr.
10. gr.
Verklagsreglur þessar eru settar samkvæmt grein 6.3 í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007 og breytingu á honum frá 18. apríl 2009. Reglurnar öðlast gildi að fenginni staðfestingu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og gildistími þeirra er sá sami og samningsins. Almenn ákvæði samningsins gilda um þá fjármuni sem ráðstafað er samkvæmt reglunum, eftir því sem við á.
Með þessum reglum falla brott eldri verklagsreglur um bústofnskaupastyrki til frumbýlinga sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 22/2009.