Hauststörfin í sauðfjárrækt 2012
Hauststörfin í sauðfjárrækt á vegum Búnaðarsambands Suðurlands eru nú að hefjast. Dagskrá haustsins er birt hér með fyrirvara um hugsanlegar breytingar. Sýningarhaldið er með svipuðu sniði og undanfarin ár, þ.e. að í þeim sveitum þar sem leyft er að komið sé saman með fé verða samsýningar. Jafnframt verður boðið upp á að þeir sem ætla að láta skoða ca 25 gimbrar eða færri geta komið með þær á sýningarstað en til að tímaplön standist þarf að panta þær gimbraskoðanir sem og aðrar tímanlega hjá Búnaðarsambandinu. Sýningarstarf verður skipulagt í samráði við formenn/forráðamenn fjárræktarfélaga/svæða á hverjum stað, hvort sem um samsýningar er að ræða eður ei. Vonast er til að það samstarf gangi vel líkt og undanfarin ár. Eins og undanfarin haust verður áhersla lögð á lambaskoðanir.
Bændur er hvattir til að nýta vel þá daga sem skipulagðir eru á þeirra svæði. Á meðan að á skipulagðri dagskrá stendur geta bændur ekki búist við því að hægt sé að skoða lömb hjá þeim utan þess dags sem skipulagður er á þeirra svæði.
Til að afköst verði sem best við sauðfjárskoðanir þarf aðstaða að vera þannig að dómar gangi sem greiðlegast fyrir sig.
Helstu atriði sem þurfa að vera í lagi eru eftirfarandi:
• HAUSTFJÁRBÓKIN þarf að vera til staðar með upplýsingum um ætterni lamba.
• Upplýsingar um fullorðinsnúmer veturgamalla hrúta og ætterni þeirra.
• Gott er að búið sé að vigta lömb og veturgamla hrúta sem koma á með til dóms. Það sparar mannskap og tíma og minnkar hávaða.
• Hafa sterka og hreina grind eða plötu undir ómsjá og festa vel á jötuband.
• Framlengingarsnúru tilbúna fyrir ómtækið.
• Lýsing þarf að vera góð og vel rúmt þar sem dómsstörf fara fram.
• Útvega ritara fyrir sýningu og hafa góða aðstöðu fyrir hann.
• Hafa stóla, kassa eða fötur til ásetu fyrir ritara, ómmælingarmann og íhald. Gamlir aflagðir skrifstofustólar koma að góðum notum.
• Hafa að lágmarki 3-4 starfsmenn frá búi við fjárskoðunina, þ.e. 2-3 menn að draga og halda í og 1 ritara. Þetta er mjög mikilvægt og ekki síður mikilvægt þar sem farið er heim á bæi og tveir starfsmenn BSSL eru við dómsstörf. Ef mjög fáliðað er heima á bæjum getur það seinkað dagsskipulagi verulega og valdið því að komið er mjög seint á þá bæi sem eftir eru.
Starfsfólk við sauðfjárskoðanir 2012:
Líkt og síðastliðið haust koma óvenju margir að sauðfjárskoðunum. Þeir sem koma að dómastörfum og ómmælingum eru Fanney Ólöf, Óðinn Örn, Halla Eygló, Grétar Már, Ágúst Ingi, Hermann Árnason, Sigríður Ólafsdóttir, Halla Kjartansdóttir og Eyjólfur Ingvi Bjarnason frá Bændasamtökum Íslands. Ef á þarf að halda köllum við til starfa Guðmund Jóhannesson gamalreyndan starfsmann BSSL í dómsstörfum. Jón Viðar Jónmundsson mun að venju koma og dæma lömb í afkvæmarannsókn að Ytri-Skógum. Þórey verður á skrifstofu í september og byrjun október.
Lambhrútar:
Lambhrútar verða mældir og stigaðir líkt og undanfarin ár. Til að fá raunhæft úrval af ásetningshrútum er nauðsynlegt að koma með til dóms og mælinga þrisvar sinnum þann fjölda sem áætlaður er til ásetnings á hverju búi. Búum verða veittar viðurkenningar fyrir hæst stiguðu lambhrúta fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri. Þeir lambhrútar sem verða skoðaðir eftir föstudaginn 19. október koma ekki til uppröðunar fyrir bestu lambhrútabúin.
Gimbraskoðanir:
Gert er ráð fyrir að framkvæma gimbraskoðanir samhliða hrútasýningum eins og hægt verður að koma fyrir. Reynt verður að skipuleggja þær skoðanir sem verða ekki á hrútasýningartímabilinu þannig að skoðunarmaður verði á ákveðnum svæðum á ákveðnum dögum. ÞESS VEGNA ER MJÖG MIKILVÆGT AÐ PANTA GIMBRASKOÐANIR TÍMANLEGA. Dómar á skýrslufærðum gimbrum verða skráðir í www.fjarvis.is.
Æskilegt er að láta ómskoða fyrr en seinna á haustin og velja ásetning áður en haustbötun hefst. Með því móti er verið að velja bráðþroskuðustu einstaklingana til ásetnings. Einnig er þá hægt að láta vænstu lömbin strax í slátrun en bata þau lömb sem þurfa á því að halda. Hrútlömb þroskast seinna en gimbrar og því er yfirleitt meiri ávinningur að bata þá, þar sem gimbrum er hættara við fitusöfnun.
Afkvæmarannsóknir hrúta:
Afkvæmarannsóknir hrúta er einn af mikilvægari þáttum sauðfjárræktarinnar. Styrkur til niðurgreiðslu á afkvæmarannsóknum kemur úr þeim hluta sauðfjársamningsins sem fellur undir nýliðunar- og átaksverkefni. Samkvæmt fundargerð Fagráðs í sauðfjárrækt frá 6. apríl 2011 var samþykkt að styrkja aðeins afkvæmarannsóknir þar sem væru 8 afkvæmahópar eða fleiri. Ef bú uppfyllir skilyrði afkvæmarannsóknar kemur styrkurinn til lækkunar vinnu við ómmælingar og uppgjör afkvæmarannsóknarinnar. Skilyrði afkvæmarannsókna hrúta eru eftirfarandi:
• Fjöldi afkvæmahópa þarf að vera að lágmarki 4 og til að rannsókn sé styrkhæf þarf að lágmarki 8 afkvæmahópa.
• Bú þarf að vera þátttakandi í skýrsluhaldi sauðfjárræktarfélaganna.
• Vorupplýsingum hafi verið skilað til Bændasamtaka Íslands til uppgjörs.
• Fyrir hvern hrút í rannsókn þarf kjötmatsupplýsingar fyrir að lágmarki 10-12 afkvæmi.
• Í hverjum afkvæmahópi skulu ómmæld og stiguð að lágmarki 8 lömb af sama kyni undan hrút.
Æskilegt er að hafa sem flesta hrúta í afkvæmarannsókn innan bús upp á að fá sem bestan samanburð.
Veturgamlir hrútar:
Veturgamlir hrútar verða mældir og stigaðir fyrir þá sem þess óska. Veittar verða viðurkenningar fyrir þrjá stigahæstu veturgömlu hrútana í hverri sýslu úr einstaklingsdómi á sauðfjárræktarfundum BSSL í nóvember.
Innheimta/gjaldskrá:
Innheimt er fyrir alla sauðfjárdóma, þ.e fyrir skoðun á gimbrum, lambhrútum og veturgömlum hrútum. Á samsýningum verður innheimt eftir ákveðnum fjölda hrúta og gimbra en ekki eftir tíma (sjá töflu 1).
Þar sem komið er heim á bæi verður gjaldskráin þessi:
• Dómar á sauðfé………………………………………………………………….. 7.000 kr/klst/starfsmann.
o 40% afsláttur er fyrir félaga í búnaðarfélagi / búnaðarsambandi (4.200 kr/klst/starfsm.)
• Komugjald heim á einstaka bú …………………………………………….. 5.800 kr
• Lágmarksgjald ………………………………………………………………….. 4.000 kr
• Styrkur sem er veittur þeim bændum sem taka þátt í afkvæmarannsókn hrúta:
o 8 hrútar eða fleiri í prófun …………………………………………. 10.000 kr
Komugjald er ekki tekið þegar unnið er eftir skipulagðri dagskrá. Þegar farið er á fleiri en einn bæ á sama svæði eða á samsýningu utan skipulagðrar dagskrár þá deilist komugjaldið niður á þá bæi.
Lágmarksgjald er tekið þegar komið er heim á bæi og skoðuð nokkur lömb og skoðun tekur innan við hálfa klukkustund. Lágmarksgjald er einungis tekið þegar unnið er eftir skipulagðri dagskrá.
Álag verður 50% ofan á gjaldskrá BSSL þar sem óskað er sérstaklega eftir skoðunum um helgar eða á kvöldin.
Veittur er 10% afsláttur til þeirra bænda sem skrá dómana á sínum lömbum sjálfir INNAN VIKU eftir að dómur á sér stað. Vonandi verður þetta hvatning til bænda að skrá dómana strax og láta starfsmenn BSSL vinna afkvæmarannsókn fyrir hrútana ef nægur fjöldi gimbra kemur til dóms undan hverjum hrút.
Þeir sem eru í skuld við Búnaðarsambandið geta ekki pantað lambaskoðun og eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Búnaðarsambandið til að gera upp vilji þeir láta skoða lömb sín í haust.
Allt verð er gefið upp án virðisaukaskatts.
Tafla 1. Verðskrá fyrir samsýningar. | |
Hrútar | |
Fjöldi | Kr. |
1-10 | 4.000 |
11-20 | 6.000 |
21-30 | 10.000 |
31-40 | 14.000 |
41-50 | 18.000 |
51-60 | 22.000 |
61-70 | 26.000 |
71-80 | 30.000 |
Gimbrar | |
Fjöldi | Kr. |
1-12 | 2.600 |
13-25 | 5.400 |
Sauðfjárræktarfundir BSSL:
Sauðfjárræktarfundir BSSL verða haldnir 21. og 22. nóvember. Á fundunum verða hauststörfin gerð upp, kynntir hrútar á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands og veittar viðurkenningar. Fundirnir verða nánar auglýstir þegar nær dregur.
Pantanir:
Pantanir fyrir lambaskoðanir og afkvæmarannsóknir hrúta þurfa að berast til BSSL í síðasta lagi á miðvikudegi vikuna fyrir skoðunarviku. Mikilvægt er að panta lambaskoðanir í tíma til að hægt sé að skipuleggja og jafnframt anna öllum pöntunum á þeim tíma sem hentar sem flestum. Ef pöntun er gerð með mjög stuttum fyrirvara má búast við að ekki verði hægt að sinna henni. Mikilvægt er að vanáætla ekki fjölda lamba um marga tugi í skoðun þar sem það getur valdið mikilli röskun á skipulagi þess dag.
Pantanir fara fram í síma 480-1800 eða á netföngin saudfe@bssl.is eða bssl@bssl.is. Taka skal fram hentugan tíma og áætlaðan lambafjölda sem skoða á.
Með von um gott samstarf
Sauðfjárræktarráðunautar BSSL