Fjárvís
Fjárvís er skýrsluhaldsforrit fyrir sauðfjárbændur, sem vilja hafa góða yfirsýn yfir fjárbúskapinn. Skýrsluhald búsins er fært beint í tölvuna og skilað til Bændasamtakanna á tölvutæku formi í stað handskrifaðra fjárbóka. Þetta eykur skilvirkni og öryggi gagnanna, sem sendar eru í landsuppgjörið. Margvíslegar skýrslur gefa bændum yfirgripsmiklar upplýsingar bæði fyrir hvert einstakt ár sem og öll árin sem færð hafa verið inn í tölvuna. Í stað þreytandi uppflettinga í mörgum fjárbókum er hægt að fá heildaryfirlit svo sem um æviferil einstakra áa. Hægt er að fá upplýsingar um slátrun flestra slátursleyfishafa á tölvutæku formi og lesa inn í Fjárvísi.
Hluti árgjalds fæst endurgreiddur ef notandi sendir inn haustbók á tölvutæku formi til BÍ, svo fremi að styrkur frá fjárræktarfélagi fáist.
Fyrsta útgáfa Fjárvísar kom út árið 1993 og nýjasta útgáfan er útgáfa 5.6.
Stuðingsvefur fyrir Fjárvísi þar sem hægt er að sækja uppfærslur og leiðbeiningar varðandi þær auk annars stuðnings.
Www.fjarvis.is
Ný útgáfa af Fjárvísi á netinu var opnuð haustið 2006. Þá fengu allir sauðfjárbændur sem þess óskuðu skoðandaaðgang að skýrsluhaldsgögnum sínum. Í febrúar 2007 var síðan opnaður skráningaraðgangur fyrir alla sauðfjárbændur sem höfðu skilað inn skýrsluhaldi vegna framleiðsluársins 2006.
Ef þú vilt vinna skýrsluhald þíns bús á www.fjarvis.is þarftu að tilkynna það til tölvudeildar BÍ á netfangið fjarvis@bondi.is. Þá er sauðfjárbúið skráð í netskil og þar með opnast fyrir skráningaraðgang að gögnum búsins. Rétt er að vekja athygli á því að með því að skrá sig í netskil er gert ráð fyrir að skýrsluhaldið sé allt skráð í nýja kerfinu og ekki verður þá tekið við skýrsluhaldsgögnum í gegnum gamla Fjárvísi eða í formi fjárbóka.
Á www.fjarvis.is er hægt skoða gögn og kynna sér kerfið. Þeir bændur sem ekki hafa fengið aðgang að fjarvis.is eru hvattir til þess að hafa samband við Bændasamtök Íslands sem fyrst og fá aðgang. Rétt er að vekja athygli á því að sami aðgangur er að www.bufe.is, www.huppa.is og www.fjarvis.is, þ.e. notuð eru sömu notanda- og lykilorð. Þannig þurfa þeir sem hafa nú þegar aðgang að www.bufe.is ekki að sækja um aðgang að www.fjarvis.is heldur einfaldlega nota sama notandanafn og lykilorð.