Tryggingar og bætur vegna tjóna af völdum eldgosa

Viðlagatrygging Íslands (www.vidlagatrygging.is)
Viðlagatrygging Íslands bætir beint tjón af völdum eldgoss á húseignum og ennfremur á lausafé hafi eigendur tryggt það gegn bruna.
Einnig bætir Viðlagatrygging búfé og heyfeng sem tryggt er landbúnaðartryggingu sem innifelur brunatryggingu.


Hvað er tryggt?
Viðlagatrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging eins og viðlagatrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna hvort heldur með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir einnig viðlagatrygging. Vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar eru sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.


Bótaskyldir tjónsatburðir
Eldgos
, t.d er hraun eða gjóska veldur skemmdum eða eyðileggingu á tryggðum munum.


Jarðskjálfti, sem veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.


Skriðufall, þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast.


Snjóflóð merkir snjóskriðu, sem fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast. Það telst ekki vera snjóflóð, þótt þak eða veggir húss sligist eða brotni undan snjó, sem safnst á eða að húsi vegna snjókomu, skafrennings eða foks. Sama á við um aðra muni, sem skemmast með svipuðum hætti.


Vatnsflóð merkir flóð, er verður þegar ár eða lækir flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum. Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð. Sama á við um venjulegt leysingavatn eða flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.


Ef tjón ber að höndum
Sé talið að bótaskylt tjón hafi orðið af völdum náttúruhamfara ber að tilkynna það tafarlaust aðalskrifstofu Viðlagatryggingar eða til viðkomandi tryggingafélags sem seldi vátrygginguna eða umboðsmanna þess.


Eigin áhætta
Skv. 10. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands er eigin áhætta vátryggðs 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir:


1. Vegna lausafjár, sem vátryggt er skv. 1. mgr. 5. gr., er 20.000 kr.
2. Vegna húseigna sem vátryggðar eru skv. 1. mgr. 5. gr. er 85.000 kr.
3. Vegna mannvirkja, sem vátryggðir eru skv. 2. mgr. 5. gr. er 850.000 kr.

Ákvæði laganna taka til tjóna sem verða frá 25. maí 2008.



Bjargráðasjóður
Almenn deild
Samkvæmt 8. gr. laga um Bjargráðasjóðs er það hlutverk almennu deildar sjóðsins að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta bein tiltekin tjón af völdum náttúruhamfara. Skilgreint er í lögunum hvaða tjón er um að ræða sem getur m.a. verið eftirfarandi:

Tjón á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga.
Tjón á landsvæðum, götum og gangstéttum sveitarfélaga.
Tjón á girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði.
Tjón á vélum, tækjum, heyi og áhöldum sem notuð eru við landbúnaðarframleiðslu og/eða við starfsemi sveitarfélaga.
Tjón vegna grasbrests, óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.


Búnaðardeild
Samkvæmt 9. gr. laga um Bjargráðasjóð er það hlutverk búnaðardeildar sjóðsins að bæta eftirfarandi tjón:


Tjón á búfé og afurðum búfjár.
Uppskerutjón á garðávöxtum.
Tjón af völdum sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa þegar ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður eigi um kennt eða eðlilegar varnir hafa verið við hafðar.

Ennfremur er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja úr búnaðardeildinni fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir tjón sem Bjargráðasjóði ber að bæta.

Umsóknir um styrki úr Bjargráðasjóði skal senda á þar til gerðum eyðublöðum, sem liggja frammi hjá búnaðarsamböndum og hjá oddvitum og ráðunautum, til skrifstofu sjóðsins í Bændahöllinni í Reykjavík innan árs frá því að tjón átti sér stað. Sími 563 0300, netfang: bjargradasjodur@bondi.is.



 

back to top