Aðalfundur BSSL 2004

96. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 27.apríl 2004 í Félagslundi, Gaulverjabæjarhreppi

1. Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður
Þorfinnur setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann minntist látins heiðursfélaga og fyrrum formanns Búnaðarsambands Suðurlands, Stefáns Jasonarsonar, en hann lést 11. febrúar sl. Fundarmenn minntust Stefáns með því að rísa úr sætum.

Þorfinnur kynnti tillögu að starfsmönnum fundarins; Björn Harðarson Holti sem fundarstjóra og þá Runólf Sigursveinsson og Valdimar Bjarnason sem fundarritara. Tillagan var samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar
Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að kjörbréfanefnd; Ólafur Þ. Gunnarsson Giljum, Haraldur Konráðsson Búðarhól og Eiríkur Jónsson Gýgjarhólskoti. Tillagan samþykkt

3. Skýrsla stjórnar; Þorfinnur Þórarinsson, formaður
Formaður fór yfir helstu verkefni stjórnar á liðnu starfsári en haldnir voru 7 stjórnarfundir á starfsárinu þar af einn í Gunnarsholti. Af helstu verkefnum stjórnar nefndi hann m.a. að ákveðið hefði verið að gefa út afmælisrit á aldarafmæli Búnaðarsambandsins árið 2008. Páll Lýðsson hefur verið ráðinn til undirbúnings og söfnunar efnis í ritið. Þá gat formaður um að stjórnin hefði ákveðið að kaupa hlutafé í líftæknifélaginu ORF fyrir 1,5 milljónir króna.
Þorfinnur ræddi leiðbeiningastarfið, það þarf að vera í stöðugri þróun. Með tilkomu sérstakrar bændabókhaldsdeildar gefast auknir möguleikar á rekstrarráðgjöf út frá bókhaldsgögnunum.
Þá gat formaður um að Búnaðarsamband A-Skaft. hefði nýlega óskað eftir viðræðum um samstarf. Gæðastýring í sauðfjárrækt kallar á aukna vinnu varðandi sauðfjárræktina sem vonandi nýtist búgreininni til framtíðar.
Varðandi framtíðina þá gat formaður þess að við myndum sjá stærri kúabú og stærri einingar í garðyrkjunni en jafnframt meiri fjölbreytni í sveitunum, m.a vegna breyttrar landnotkunar og áhuga þéttbýlisbúa eftir búsetu þar.
Fyrir Búnaðarsambandið væri mikilvægt að þróa ráðgjöfina á hverjum tíma í samræmi við þarfir notendanna. Slíkt hefði tekist undanfarin ár og tækist vonandi áfram. Búnaðarsambandið stendur vel rekstrar- og eignalega og hefði faglega og fjárhagslega burði til að þjóna bændum vel.

4. Reikningar Búnaðarsambands Suðurlands og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson
Framkvæmdastjóri fór yfir reikninga Búnaðarsambandsins en þá er að finna á bls. 163-174 í Ársriti Búnaðarsambandins 34.árgangs. Rekstrarreikningur allra deilda sýnir tap upp á 1.873.313 kr. Þá hafði verið tekið tillit til framlags Búnaðarsambandsins til Stóra-Ármóts ehf. upp á 6 milljónir króna. Þá greindi hann frá tekjuskiptingu Búnaðarsambandsins á liðnu ári og fjallaði loks stuttlega um áhyggjur manna vegna kálæxlaveikinnar og þau viðbrögð sem menn hafa rætt um að grípa til í kjölfarið.
Loks kynnti hann nýja starfsmenn; Friðrik Eysteinsson sem er sameiginlega ráðinn af Sambandi garðyrkjubænda og Búnaðarsambandinu. Þá var Valdimar Bjarnason viðskiptafræðingur ráðinn til starfa frá 1.september sl.
Framundan er kúa-og kvíguskoðun, vinna við undirbúning Landsmóts hestamanna á Hellu næsta sumar verður veruleg, kúasýning er fyrirhuguð í lok ágúst. Búnaðarsambandið hefur tekið að sér forðagæslumál í Skaftárhreppi og leigir síðan út skrifstofuaðstöðu vegna búfjáreftirlits í Árnes- og Rangárvallasýslum.

5. Umræður um skýrslur og reikninga
Sigurður Loftsson þakkaði framlagðar skýrslur um starfsemi sambandsins og þakkaði samstarf Félags kúabænda á Suðurlandi og Búnaðarsambandsins á liðnu ári. Sigurður velti fyrir sér framtíð ráðgjafarstarfs hjá Búnaðarsambandinu og tengslum notenda og starfsmanna. Viss hætta er á því í núverandi fyrirkomulagi, varðandi fjármögnun þessa starfs, valdi því að starfsemin verði ekki eins markviss og hún gæti verið. Ástæða væri fyrir stjórn Búnaðarsambandsins að hugleiða hvort ekki væri rétt að fara út í stefnumörkunarvinnu á næstum misserum, ekki síst vegna komandi aldarafmæli Búnaðarsambandsins. Þá velti Sigurður fyrir sér þeim fjölda félaga (48) sem eiga fulltrúarétt á aðalfund. Með hliðsjón af mismikilli virkni þessara félaga hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir stjórn Búnaðarsambandsins. Loks hvatti Sigurður stjórn að íhuga breytingu á tímasetningu aðalfundar með það í huga að færa hann fram.

Þorfinnur Þórarinsson sagði stjórn meðvitaða um núverandi fyrirkomulag fjármögnunar og síðan hvaða möguleikar væru til að efla starfið með það eins skilvirkt og hægt er. Ávallt þyrfti að vera vakandi yfir félagslega þættinum, spurning hvort á næstu árum ætti að stefna á sameiningu einstakra félaga innan Búnaðarsambandsins.

Sveinn Sigurmundsson sagði að stjórn sambandsins hefði ákveðið að breyta uppsetningu ársritsins í þá veru að fella niður starfsskýrslur ráðunauta. Jafnframt þurfa menn að hugleiða fjármögnun starfseminnar til framtíðar.

Guðmundur Lárusson fjallaði um hreppabúnaðarfélögin og starfsemi þeirra sem væru helst einhver tækjaleiga og tækjaeign. Velti fyrir sér hversu lengi SUNNA verður söluvæn vara þegar eftirfylgni er ekki meiri en raun ber vitni. Jafnframt velti hann fyrir sér liðnum seld þjónusta í ársreikningum og taldi að bændabókhaldsþjónusta sem Búnaðarsambandið veitti vera dæmi um slíka þjónustu.

Daníel Magnússon spurði hvort ekki væri hægt að hafa kúasýningu í Rangárvallasýslu.

Sigurlaug Leifsdóttir lagði áherslu á að flýta kvíguskoðun og ræddi kálæxlaveiki. Ræddi um nauðsyn fræðslu með tilliti jarðræktar og einnig um stöðu SUNNU-verkefnsins.

Runólfur Sigursveinsson ræddi stöðu SUNNU-verkefnis og m.a. samanburð sem unninn var fyrir fulltrúa bænda í samninganefndinni.

Eggert Pálsson ræddi SUNNU-verkefnið og taldi að upplýsingar þyrftu að liggja fyrr fyrir og ræddi um nauðsyn eftirlits með tækjum búnaðarfélaga vegna kálæxlaveikinnar.

Sveinn Sigurmundsson ræddi SUNNU-verkefnið, mikill tími hefur farið í þetta og hefði sem slíkt skilað árangri en nauðsynlegt að fara í skoðun á þessu með tilliti til þess að gefa fleirum möguleika á að taka þátt í verkefninu.
Varðandi kúasýningu í Rangárvallasýslu þá sagði Sveinn að ákveðið hefði verið að hafa hana í Ölfushöllinni í ár en hvað varðar staðsetningu slíkrar sýningar þyrfti m.a. að hafa í huga aðgengi gripa að svæðinu og síðan aðstöðu fyrir áhorfendur til að fylgjast með sýningunni.
Ljóst er að fylgjast þarf vel með framvindu kálæxlaveikinnar og reynt verði með öllum tiltækum ráðum að útrýma henni.

6. Kjörbréfanefnd skilar áliti
Nefndarmenn kynntu álit nefndarinnar:
Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bragi Ásgeirsson, Selparti
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Björn Harðarson, Holti
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Guðmundur Lárusson, Stekkum
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Ketill Ágústsson, Brúnastöðum
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Ólafur Einarsson, Hurðabaki
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Benedikt Kolbeinsson, Votumýri
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Enginn fulltrúi mættur
Búnaðarfélag Hrunnamannahrepps
Grétar Skúlason, Miðfelli
Annar fulltrúi ekki mættur
Búnaðarfélag Biskupstungnahrepps
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti
Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Enginn fulltrúi mættur
Búnaðarfélag Laugardalshrepps
Jón Þormar Pálsson, Böðmóðsstöðum
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Ágúst Gunnarsson, Stærri-Bæ
Búnaðarfélag Grafningshrepps
Sigurður Hannesson, Villingavatni
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Þórarinn Snorrason, Vogsósum
Búnaðarfélag Eyrarbakka
Enginn fulltrúi mættur
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Kristinn Stefánsson, Raufarfelli
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, Nýjabæ
Búnaðarfélag A-Landeyjahrepps
Haraldur Konráðsson, Búðarhóli
Búnaðarfélag V-Landeyjahrepps
Þorsteinn Markússon, Eystra-Fíflholti.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Ólafur Þorri Gunnarsson, Bollakoti
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi mættur
Búnaðarfélag Ranárvallahrepps
Þórir Jónsson, Selalæk
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Enginn fulltrúi mættur
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Óskar Ólafsson, Bjóluhjáleigu
Búnaðarfélag Ásahrepps
Jón Þorsteinsson, Syðri-Hömrum
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestbakka
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Kjartan Magnússon, Fagurhlíð
Búnaðarfélag Álftavers
Þórarinn Eggertsson, Hraungerði
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Sigursveinn Guðjónsson, Lyngum
Búnaðarfélag Skaftártungu
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Ljótarstöðum
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þ. Gunnarsson, Giljum
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Margrét Guðmundsdóttir, Vatnsskarðshólum
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Jóhannes Sveinbjörnsson, Heiðarbæ
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Ágúst Rúnarsson, Fíflholti
Jón Guðmundsson, Berjanesi
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri
Ólafur S. Björnsson, Reyni
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Enginn mættur, fulltrúi boðaði forföll
Félag skógarbænda á Suðurlandi
Margrét Þórðardóttir, Þverlæk
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri
Jón Vilmunarson, Skeiðháholti
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal
Félag kúabænda á Suðurlandi
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Ágúst Sæmundsson, Bjólu
Ágúst Dalkvist, Eystra-Hrauni
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum
Samband garðyrkjubænda
Helgi Jóhannesson.
Annar fulltrúi ekki mættur

45 fulltrúar mættir

7. Haraldur Benediktsson formaður BÍ flytur ávarp og veitir verðlaun fyrir besta nautið í árgangi nauta fæddum 1997
Þakkaði boð á fundinn. Ræddi vanda ullariðnaðarins og einkum ÍSTEX. Stjórnendur fyrirtækisins bjartsýnni en áður varðandi markaðsstarf. Mikil verðmæti bundin í eignum ÍSTEX m.a. í Mosfellsbæ og í Hveragerði en ekki hefur tekist að selja þær enn. Ekki hefur enn tekist að gera upp við bændur vegna ullarinnar frá liðnu ári.
Staðan í lambakjötssölu bærileg eins og er. Kjúklingaframleiðendur eru enn að dæla inn á markaðinn kjöti sem er undirverðlagt til framleiðenda sem nemur 120-130 kr á kíló. Staða svínakjöts ívið skárri en útsölur þar virðast viðvarandi.
Ljóst að þetta bitnar m.a. á fóðursölum og þá væntanlega í hærra verði til annarra kaupenda fóðurs.
Mjólkursamningagerð er í gangi. Tollverndin er óútkljáð og þá markaðsvernd vegna innlendrar framleiðslu. Verð á greiðslumarki þarf að lækka. Ef formbreyting verður á stuðningi þá mun það væntanlega gerast að verð á greiðslumarki lækkar í kjölfarið. Taka þarf einnig mið af WTO-væntingum.
Vandi loðdýrabænda er í umræðu og þá einkum fóðurstöðva, líklegt að á endanum verði gerður einn samningur við loðdýrabændur um starfsskilyrði.
Ræddi um skilagjald á rúlluplast.
Endurskoðun á búnaðarlagasamningi fyrirhuguð. Þar verður m.a. rætt um lífeyrisskuldbindingar. Búrekstrartengd ráðgjöf verður þar einnig til umræðu og ráðstöfun þess fjármagns.
Þróun leiðbeiningamiðstöðva, væntanlega verður um að ræða 3 til 4 í framtíðinni. Jafnframt er eðlilegt að fleiri starfsmenn verði þar sem hafa aðra þekkingu en hina hefðbundnu búfræðiþekkingu.
Að lokum veitti Haraldur verðlaun vegna besta nauts í árgangi 1997. Um er að ræða nautið Stíg 97010, en Magnús Guðmundsson bóndi í Oddgeirshólum veitti verðlaununum viðtöku.

8. Hugleiðingar um forðagæslumál. Óðinn Örn Jóhannsson
Ræddi starfsvið búfjáreftirlitsmanna og helstu mál sem upp hafa komið. Aðstaða er mismunandi hjá bændum, of oft hefur aðbúnaði verið áfátt, einkum varðandi rými í stíum og húsum. Einnig hafa verið gerðar athugasemdir varðandi útigang gripa.

9.Umræður
Ágúst Rúnarsson spurði um nautakjötsmál.

Guðrún Stefánsdóttir spurði um fyrirkomulag grænna greiðslna.

Haraldur Benediktsson sagði að nautakjötsmál væru rædd inn í samninganefnd um nýjan búvörusamning og þá sérstakan stuðning vegna hennar. Hann sagði að grænu greiðslurnar væru erfiðar í framkvæmd, væri ekki í raun skilvirkt kerfi.

10.Tillögur lagðar fram og kynntar
Sveinn
kynnti þær tillögur sem borist hafa til fundarins.

11.Nefndir hefja störf
Formenn nefnda; fagmálanefnd Guðmundur Lárusson, allsherjarnefnd Ólafur Einarsson og Jón Vilmundarson fjárhagsnefnd.

12. Afgreiðsla mála
(sjá skýrslu stjórnar)

13.Kosningar
Kosið um einn mann í aðalstjórn og einn til vara.

Kosningu hlaut sem aðalmaður; Guðni Einarsson Þórisholti með 38 atkvæðum. Til vara; Þórhildur Jónsdóttir Ketilsstöðum.

Skoðunarmenn reikninga endurkjörnir þeir Vilhjálmur Eiríksson og Elvar Eyvindsson

14. Önnur mál
Sigurður Hannesson á Villingavatni ræddi ýmis mál varðandi sjúkdóma í búfé í gegnum tíðina og vitnaði t.d. í hvernig gekk að útrýma fjárkláða og hvernig gengið hefur við útrýmingu riðunnar. Minkurinn kom inn í landið 1931. Árið síðar er leyfður innflutningur á fé og með þeim sjúkdómar. Eins var það með innflutninginn 1933 en með þeim innflutningi bárust sjúkdómar eins og mæðiveikin.
Ræddi sveiflur á hitastigi á liðnum árum og áhrif þess á búskap.

Sigurlaug Leifsdóttir ræddi um starfsemi BÍ og hvaða verkefni eiga á vera hendi þeirra og hvaða verkefni eiga heima hjá búgreinunum sjálfum.

Margrét Gunnarsdóttir ræddi framlögð fundargögn í formi möppu og hvatti stjórn til að breyta þar um fyrir næsta ár.

15. Fundarslit
Formaður Þorfinnur Þórarinsson þakkaði góðar umræður um starfsemi Búnaðarsambandsins. Jafnframt þær tillögur sem samþykktar voru. Stjórnin mun síðan vinna úr þessum tillögum á næstu mánuðum.
Þakkaði Sigurði á Villingavatni fyrir hans innlegg á fundinum varðandi sjúkdómavána og sleit síðan fundi.

Fundarritarar: Runólfur Sigursveinsson og Valdimar Bjarnason

Samþykktar tillögur á aðlfundi BSSL 2004:

Tillaga 1.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Félagslundi 23. apríl 2004 mótmælir harðlega lækkun á framlagi ríkissjóðs til refaveiða sem kom til framkvæmda á síðastliðnum vetri.  Skorað er á umhverfisráðherra að draga þessa aðgerð til baka og halda áfram fullu samstarfi við sveitarfélögin í landinu um þennan málaflokk.

Lagt fram af Búnaðarfélagi Álftavers.

Greinargerð.
Á liðnum árum hefur ref fjölgað mjög á starfssvæði Búnaðasambands Suðurlands.  Til þess liggja nokkrar ástæður, en þar vegur þyngst ákvörðun fjárveitingavaldsins að hætta 85% kostnaðarþátttöku við refaveiðar árið 1997.  Nytjar sjávarspendýra eru að mestu aflagðar og deyja því mun fleiri dýr en áður náttúrulegum dauðdaga, reka síðan á land og eru þar með gríðarlegt framboð á æti á veturna.  Blöndun á aliref við íslenska stofninn hefur aukið frjósemi refastofnsins til muna en hjá þeim dýrum er yrðlingafjöldinn 30-50% meiri.
Fjöldi refa er á ákveðnum svæðum orðinn það mikill að fuglastofnar þola þetta ástand ekki. Auk þess sem meira hefur orðið vart við dýrbít en áður.  Á Suðurlandi hefur til dæmis helsingi reynt varp í nokkur undanfarin ár.  Slíkt landnám gerist ekki nema á árhundraða fresti, en það er borin von að slíkt geti tekist með jafn öflugan refastofn yfir sér og raun ber vitni.
Aðstaða sveitarfélaga til að sinna þessu er misjöfn og er því nauðsynlegt að ríkið haldi áfram að halda utan um þennan málaflokk.

Tillaga 2.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Félagslundi 23.apríl 2004 beinir eftirfarandi til landbúnaðarráðherra, Alþingis og ríkistjórnar Íslands:

• Að tryggt verði nægt fjármagn til nauðsynlegs niðurskurðar á sauðfé og annarra aðgerða í tengslum við hreinsun og fjárskipti vegna riðu í Árnessýlu.
• Að hvergi verði hvikað frá markmiðum um að útrýma riðuveiki.

Greinargerð.
Um áratugaskeið hefur niðurskurður fjár á riðusvæðum verið helsta aðferðin í baráttunni við útbreiðslu riðuveiki í sauðfé. Þrátt fyrir að enn sé margt óljóst um það hvernig riðan breiðist út og enn komi upp ný tilfelli er ljóst að ef niðurskurði hefði ekki verið beitt væri riðan landlæg um allt land og ástandið komið algerlega úr böndunum. Þrátt fyrir þau óþægindi og kostnað er af niðurskurði hlýst er hann af tvennu illu skárri kostur en að búa við riðuna. Því er nauðsynlegt að tryggt sé það fjármagn sem þarf til bótagreiðslna og annarrar eftirfylgni vegna riðuniðurskurðar í Árnessýslu nú og slíkra tilfella er upp kunna að koma í framtíðinni.

Tillaga 3.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Félagslundi 23 apríl 2004  lýsir áhyggjum yfir mjög bágu viðhaldi vega víða í sveitum, girðingum, hliðum og reiðvegum meðfram þeim. Uppbygging og viðhald þessara mannvirkja er oft ekki í nokkru samræmi við notkun og stendur það atvinnu- og íbúaþróun þessara svæða fyrir þrifum. Því er skorað á ríkisvald og Vegagerð að ráða bót á þessu hið bráðasta.

Tillaga 4.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 23. apríl 2004 beinir því til sveitarstjórna að hlutast til um að plastpakkaðir baggar liggi ekki á víð og dreif um tún og akra langtímum saman. Fundurinn minnir í þessu sambandi á mikilvægi góðrar ásýndar landbúnaðarins og íslenskra sveita.

Tillaga 5.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 23. apríl 2004 í Félagslundi samþykkir óbreytt árgjald til Bssl. alls kr 1.000,- á félagsmann.

Tillaga 6.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 23. apríl 2004 í Félagslundi samþykkir að þóknun fulltrúa á aðalfundi verði kr. 8.500

Tillaga 7.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 23. apríl 2004 í Félagslundi
leggur til að fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2004 verði samþykkt.

Tillaga 8.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 23. apríl 2004 í Félagslundi samþykkir fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar Suðurlands og þar með óbreytt sæðingagjöld á komandi starfsári.

Tillaga 9.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 23. apríl 2004. Tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í ályktun síðasta aðalfundar Landssambands kúabænda, varðandi framlög til „markmiðstengdra búrekstraráætlana”. Jafnframt ítrekar fundurinn mikilvægi öflugra hagfræðileiðbeininga í landbúnaði.

Ályktun aðalfundar LK hljóðar svo:
„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 skorar á stjórn Bændasamtaka Íslands og Fagráðs í hagfræði að taka til endurskoðunar úthlutun framlaga vegna “markmiðstengdra búrekstraráætlana”  til búnaðarsambandanna með það að markmiði að auka vægi eftirfylgni áætlana frá því sem nú er.
Greinargerð.

Samkvæmt núgildandi búnaðarlagasamningi eru sérmerktir fjármunir sem ætlaðir eru til “markmiðstengdra búrekstraráætlana” Árlega tekur stjórn Bændasamtaka Íslands ákvörðun um úthlutun fjármagns úr þessum lið búnaðarlagasamnings. Miðað hefur verið við að greiða búnaðarsamböndum út á hverja áætlun sem unnin er hvert ár. Eins og úthlutunarreglur eru núna fæst tvöfalt hærra framlag á nýja áætlun en eftirfylgni eldri áætlana. Meira virðist því skipta máli að formgera hlutinn í þessu tilviki en að veita markvissa eftirfylgni og í raun verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem hefst fyrir alvöru þegar viðkomandi bóndi og ráðgjafi fara að velta mismunandi kostum til betri árangurs í búrekstrinum.”

Tillaga frá Félagi kúabænda á Suðurlandi

Tillaga 10.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn að Félagslundi 23. apríl 2004, hvetur Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðuneytið að grípa nú þegar til varnaraðgerða gegn kálæxlaveiki sem orðið hefur vart á starfssvæði BSSL.

1. Kanna þarf nákvæmlega útbreiðslu veikinnar.
2. Leiðbeina um varnir gegn frekari útbreiðslu.
3. Leita leiða til að útrýma kálæxlaveiki.

Greinargerð.
Það er alvarlegt mál að veiki sem þessi er komin til að vera og spillir kálökrum bænda. Það er ekki síður alvarlegt fyrir þá bændur sem stunda ræktun matjurta af krossblómaætt.
Áríðandi er að strax verði brugðist við þeim vanda sem upp er komin svo koma megi í veg fyrir meira tjón en orðið er.

Lögð fram af Búnaðarfélögum Gaulverjabæjarhrepps og V-Eyfellinga

Tillaga 11.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Félagslundi 23. apríl 2004, skorar á stjórn Rannsóknastofu mjólkuriðnaðarins að beita sér fyrir því að fjölga efnamælingum úr einstökum kúm þannig að þær fari fram 12 sinnum á ári í stað átta sinnum á ári eins og nú er meginreglan.

Greinargerð.
Sífellt aukast kröfur til mjólkurframleiðenda um gæði mjólkurinnar. Nú síðast tóku gildi hertar reglur frá 1.apríl sl um mjólkurgæði. Því er mikilvægt að kúabændur geti á hverjum tíma fengið sem nákvæmastar upplýsingar um gæði mjólkur úr einstökum kúm með það að markmiði að skila sem bestri framleiðslu inn í afurðastöð.

Tillaga lögð fram af Nautgriparæktarfélagi Eyfellinga

Tillaga 12.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Félagslundi 23. apríl 2004, skorar á stjórn Búnaðarsambandsins að framkvæma könnun á bændabýlum á Suðurlandi á umfangi njólavandamála. Jafnframt verði leitað bestu leiða til að útrýma njóla.

Tillaga 13.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Félagslundi 23. apríl 2004, beinir þeim tilmælum til Fagráðs í nautgriparækt að það beiti sér fyrir því að orsakir vaxandi tíðni dauðfæddra kálfa hérlendis verði rannsakaðar án tafar.

Greinargerð.
Í allmörg ár hefur tíðni dauðfæddra kálfa í íslenska kúastofninum farið vaxandi og er nú svo komið að á árinu 2003 voru nærri 13% allra fæddra kálfa skráðir dauðfæddir samkvæmt kúaskýrslum á Suðurlandi. Á landsvísu lætur nærri að fimmti hver kálfur undan fyrsta kálfs kvígum sé dauðfæddur.
Slíkt ástand getur á engan hátt talist eðlilegt né heldur viðunandi og því brýnt að orsakir þess verði fundnar sem hlýtur að vera forsenda þess að mögulegt sé að ráða bót á vandanum.

back to top