Aðalfundur BSSL 2011

103. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 15. apríl 2011 á Selfossi.

1. Fundarsetning, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Guðbjörg Jónsdóttir setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn og gesti velkomna. Hún gerði það að tillögu að María Hauksdóttir, Geirakoti stjórnaði fundinum og Helga Sigurðardóttir starfsmaður Búnaðarsambandsins ritaði fundargerð.  Var það samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar.
María Hauksdóttir kom með tillögu að skipan kjörbréfanefndar sem var svohljóðandi; Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti, Bjarni Pálsson, Syðri-Gróf og Jón Jónsson, Prestbakka. Tillagan var samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Guðbjörg fór yfir síðasta starfsár sem var það stysta í sögu sambandsins. Síðasta aðalfundi var frestað fram á haust vegna óvissunnar sem var vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Á síðasta ári urðu þær breytingar á stjórn að Guðni Einarsson í Þórisholti gaf ekki kost á sér áfram.  Í hans stað var kjörinn fulltrúi skaftfellinga, Jón Jónsson, Prestsbakka.
Frá síðasta aðalfundi voru haldnir 4 stjórnarfundir en 2 stjórnarfundir voru haldnir frá áætluðum aðalfundartíma til þess tíma sem aðalfundurinn var.
Síðasta starfsár einkenndist af verkefnum tengdum eldgosinu auk hinna hefðbundnu starfa.  Ljóst er að þessar hamfarir tóku mikla orku frá öðrum verkefnum og fóru í gosmálin rúmlega tvö ársverk.  Þar sýndi sig hversu burðugt Búnaðarsambandið er til að takast á við aukin verkefni og kostnað þeim tengdum.
Búnaðarsambandið sendi inn tvö mál fyrir Búnaðarþing varðandi málefni tengd gosinu.  Var það fyrst viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara með tilliti til áhrifa á búsetuskilyrði, búfé og gróður.  Hins vegar málefni sem tengjast afleiðingum eldgossins með tilliti til heilsufars manna og dýra.  Bæði málin fengu gott brautargengi á Búnaðarþingi.
Stjórnin sendi frá sér tvær bókanir til stjórnar Bjargráðasjóðs.  Önnur var að hafa starfsmann sjóðsins tímabundið á svæðinu. Hin var að framlengja þær sérstöku reglur sem settar voru til eins árs um tjónabætur vegna eldgossins.  Forsvarsmenn Bjargráðasjóðs tóku vel í þessar bókanir og verða endurskoðaðar úthlutunarreglur sendar frá þeim á næstunni.  Þeir báðu fyrir góðar kveðjur og þökkuðu boðið á fundinn og vildu koma á framfæri þökkum fyrir sérstaklega vönduð vinnubrögð ráðunauta Búnaðarsambandsins.
Ánægjulegt er að Stóra-Ármót sýnir svona góðan rekstur, en Búnaðarsambandið leggur til tilraunaaðstöðu og LBHÍ skipuleggur tilraunastarfið.  Eru það mikil vonbrigði hversu lítill kraftur er í tilraunastarfinu og er það ekki í anda stjórnar Búnaðarsambandsins sem vill meiri nýtingu á þessari aðstöðu.
Góður árangur í rekstri Kynbótastöðvar Suðurlands og mikil þátttaka sunnlenskra kúabænda í sæðingum er lykillinn að lágum sæðingagjöldum á okkar starfssvæði.  Aukin krafa annarra svæða sem ekki ná viðlíka árangri að sameina sæðingastarfsemina á landsvísu, til að jafna kostnað.  Stefna okkar er skýr, ekki kemur til álita af okkar hálfu að breyta núverandi fyrirkomulagi.
Nýr búnaðarlagasamningur til tveggja ára var undirritaður á árinu 2010, þar kemur fram mikil skerðing á fjárframlögum.  Þó að í samningagerðinni hafi verið lögð áhersla á að standa vörð um ráðgjafastarfið, verða framlög til ráðgjafaþjónustu og búfjárræktar fyrir verulegum skerðingum.  Breytingarnar munu hafa mikil áhrif á reksturinn, en áætluð heildarskerðing framlaga til Búnaðarsambandsins verði um 10 millj.kr. á næsta ári. Aldrei hefur þó verið meiri þörf á sérhæfðari og rekstrartengdri þjónustu í landbúnaði en einmitt nú.  Verður því að gera ráð fyrir aukningu í seldri þjónustu á komandi árum, en ekki að hún sé kostuð með öðrum hætti.
Fyrr eða síðar þarf að ræða stöðu ráðgjafaþjónustunnar í landinu og móta hlutverk Búnaðarsambandsins til framtíðar.  Hvort við ætlum áfram að vera leiðandi afl eða hvort við eigum að láta ráðgjafaþjónustuna af hendi inn í eina miðlæga leiðbeiningastöð.
Að lokum vil ég þakka stjórn og starfsfólki Búnaðarsambandsins fyrir gott samstarf á árinu.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveins Sigurmundssonar.
Sveinn byrjaði á að bera fundinum kveðju frá Fanneyju Ólöfu, sauðfjárræktarráðunaut en hún er að glíma við erfið veikindi.
Breytingar verða á fundinum varðandi nefndarskipan, en þeim verður fjölgað úr þrem í sex.  Nefndirnar verða; Allsherjarnefnd, Fjárhagsnefnd, Nautgriparæktarnefnd, Sauðfjárræktarnefnd, Hrossaræktarnefnd og Jarðræktarnefnd.
Sveinn fór yfir reikninga fyrirtækjanna helstu lykiltölur úr rekstrareikningum, án dótturfélagsins Stóra-Ármóts sýna tekjur upp á um 223 milljónir og rekstrargjöld upp á um  231 milljón.  Tap af reglulegri starfsemi var um 8 milljónir. Fjármagnstekjur voru um 6 milljónir og tekjuskattur um 500 þúsund.  Heildartap ársins var því 1,5 milljónir. Stóra-Ármót er aftur rekið með hagnaði upp á tæpar 4 milljónir. Þannig að heildarniðurstaðan er hagnaður upp á 2,2 milljónir sem stjórnin leggur til að verði færður til eignar. Það er ekki markið að safna sjóðum en heildarniðurstaða er að þetta er vel viðunandi því sjóðirnir fleyta okkur yfir núllið.
Þar næst fór Sveinn yfir rekstur hvers fyrirtækis fyrir sig og byrjaði á Búnaðarsambandinu. Þar hefur seld þjónusta minnkaði en starfsfé jókst, samtals voru tekjur upp á 120 milljónir, gjöld voru um 124 milljónir þar af laun og launatengd gjöld upp á um 80 milljónir, þar munaði helst um aukningu vegna goss. Tap var því upp á 4,8 milljónir án  fjármagnsliða og er það mikil breyting frá hagnaði árið á undan, heildarveltan er 119,8 milljónir. Samdráttur er 5,5 milljónir skv. Búnaðarlagasamningi, en búnaðargjaldið vegur það upp.  Auknar tekjur er helst í túnkortagerð en nýr starfsmaður þar, Halla Kjartansdóttir, er búin að ná verulega góðum árangri að minnka biðlista sem safnast hafa upp undanfarin ár.  Seld þjónusta minnkaði milli ára og þar eiga hrossasýningar stóran hlut að máli.  Tap BSSL af sýningunum er lítilvægt miðað við það tap sem bændur sjálfir máttu þola. Aðrar tekjur eru forðagæsla í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu, sauðfjársýningar gáfu minni tekjur og má það helst skýra með því að bændur nýttu betur auglýsta sýningardaga.  Vinna vegna Landgræðslu hefur minnkaði niður í 35% af því sem hún áður var.  Aukin útgáfustarfsemi en keypt var ný ljósritunarvél sem prentar fréttabréfið, túnkortin og fleira sem þarfnast útprentunar.  Búnaðarsambandið telur 1462 félaga í 38 aðildarfélögum.
Sauðfjársæðingastöðin er á pari.  Tap þar upp á 330 þúsund.  Ferskt sæði fór í rúmlega 13 þúsund ær og fryst sæði í tæplega 600 ær.  Til eru birgðir af frystu sæði í genabanka.  Minna var flutt út af sæði, vegna reglugerðar frá Evrópusambandinu. Gæðahandbók er í vinnslu til þess að útflutningur gangi upp. Í gangi eru líka endurbætur á húsnæði, en þar eru hlutir sem þarf að lagfæra svo sú vottun sem þarf til útflutnings gangi í gegn.
Kynbótastöðin skilaði hagnaði upp á 342 þúsund. Sæðingagjöld 1200 kr. á kú.  Bifreiðakostnaður hækkar upp í 32,56 kr/km  Kostnaður á sæði er 4.206 kr.  Klaufskurðarbásinn er nýttur fyrir um 2600 kýr á 75 bæjum og er kostnaður á kú 725 kr.  Gjald fyrir klaufsnyrtingu er 3.500,- kr/klst. Eins er rukkað 9.000,- kr. í komugjald.  Markmiðið er að bjóða upp á góða þjónustu við bændur á kostnaðarverði.
Á Stóra-Ármóti er hagnaður upp á 3.713 þúsund kr.  Góður rekstur og miklar afurðir með hátt efnainnihald eru helsta skýring á góðu gengi.  Ýmsar tilraunir eru í gangi, þar á meðal, aukinn styrkur af byggi í fóðri mjólkurkúa, sýring á afgangsmjólk fyrir kálfa, kvígur 24, áhrif Startvac bóluefnis á júgurheilbrigði, jarðræktartilraunir, athuganir á niðurfellingu á mykju, athugun á öskublönduðu heyi, nemendaverkefni og grastegundatilraunir.  Mikil niðurskurður á fjármagni í tilraunastarfsemi í landbúnaði og LbHÍ stendur illa og það bitnar á öllum.  Samvinna við Félag kúabænda á Suðurlandi er í burðarliðnum.  Þar eru sóknarfæri bæði þannig að bændur sjálfir komi að tilraunum og eins að félagið styrki það tilraunastarf sem fram fer á Stóra-Ármóti
Bændabókhaldið var með tap og veltufé frá rekstri 884 þús.kr. Virðisaukaskattskýrslur eru gerðar fyrir 104 aðila.  Skattframtöl fyrir 155 bú, en mun fleiri einstaklinga.  Almenn ráðgjöf og símaráðgjöf er gjaldfrí.  Gjaldskráin er 5.300,- kr/klst. og sjálfsagt er hún of lág.  Bændabókhaldið veitir einnig sérfræðiþekkingu og það er mikill stuðningur við rekstrarráðgjöf ráðunauta Búnaðarsambandsins.  Að hafa bókhaldið svona innan seilingar er styrkur fyrir báða aðila.  Bændabókhaldið sér einnig um námskeið í DK búbót og launaútreikninga fyrir ýmis fyrirtæki.
Sveinn talaði um eldgosið í Eyjafjallajökli, en í gær 14.apríl var ár frá því það hófst. Búnaðarsambandið tók að sér fjárflutninga yfir á Leiðvöll, Þverá, Nýjabæ og Lágu-Kotey.  Flutningurinn var mest í höndum Hermanns Árnasonar og Árna Gunnarssonar sem ók fjárbílnum.  Flutningarnir hófust 18. maí og var fyrsta ferðin að Þverá.  Sendar voru 100 ær auk lamba í ferð.  Flest féð var í girðingunni við Leiðvöll, en jarðirnar Þverá, Nýibær og Lága-Kotey voru líka nýttar.  Skaftáin var lítill farartálmi fyrir féð í Nýjabæ og var það því flutt í Leiðvallagirðinguna.  Fjöldi fjár af gossvæðinu á jörðum í Skaftárhreppi var: Þverá 414 ær og 704 lömb og 3 geldkindur, Nýjabæ 289 ær, 491 lamb, Lága-Kotey 237 ær, 403 lömb og 11 geldkindur, Leiðvelli 630 ær, 1071 lamb og 90 geldfé.    Smölun var 26. ágúst, með 25 smölum sem fóru um 7.900 ha.  Réttin var úr hliðgrindum frá Fóðurblöndunni og var féð keyrt heim samdægurs á 3 bílum.  Féð leit vel út, var jafnt, laust við skitu og ormahreinsað.  Þveráin var smöluð um miðjan september.  Spurningin er svo með næsta ár hvort það fé sem ekki hefur enn afrétt á gossvæðinu fái að fara í Leiðvallagirðinguna, en Landgræðslan hefur tekið vel í það.  Varðandi heyöflun voru margar hugmyndir til að tryggja bændum hey. m.a. stórfelld félagsleg ræktun til að tryggja fóður, heybanki þar sem skilyrða átti bændur til að versla við bankann.  Niðurstaðan varð heymiðlun, þar var auglýst eftir heyjum, 55 bændur gáfu sig fram og var mikil svörun.  Heyin voru þó misjöfn og var mikið um fyrningar, en það vantaði gott kúahey.  Samvinna á heymiðluninni var milli þeirra þriggja hreppa sem gosið mæddi mest á þ.e. Rangárþingi eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp.  Tjónamat var hjá ráðunautum BSSL, langmest mæddi á Pétri Halldórssyni. Endurræktun var færð inn í loftmyndagrunn, heyöflun fjarri heimajörð, heykaup og flutningar.  Einnig þurfti að meta flóðatjón, girðingar, endurræktun og skurði.  Kanna þörf og skipuleggja gripaflutninga á sauðfé, hrossum, nautgripum og meta afurðatjón. Tjónabætur hafa verið greiddar af Bjargráðasjóði samtals að upphæð um 102 milljónir.  Sveinn vildi þakka samvinnu við Bændasamtök Íslands og þá sérstaklega þátt Eiríks Blöndals og samskiptin við hann, sem hafa í alla staði verið mjög góð. Afleysingaþjónusta bænda á gossvæðinu var að mestu greidd af norskum bændum, en Búnaðarsambandið sá um skipulag og framkvæmd, ásamt ýmsum kostnaði henni tengdri, svo sem bíl, gistingu og launaútreikning.  Upplýsingagjöf á netinu varðandi þjónustu Búnaðarsambandsins tengda gosinu má þakka Guðmundi Jóhannessyni og hans öflugu vinnu við heimasíðuna bssl.is.  Flestir ráðunautar komu eitthvað að gosmálum og sáu um sýnatöku, ösku-, gróður- og heysýni ásamt ýmsum matsstörfum, en eins og áður hefur komið fram var mest í höndum Péturs Halldórssonar.
Að lokum þetta síðasta ár var nokkuð sérstakt og mikil vinna við gosmál.  Búnaðarsambandið lagði til rúmlega tvö ársverk við gosið og kostnaður sambandsins er um 15 milljónir.  Umsóknafrestur við tjónabætur verður lengdur til næstu áramóta a.m.k.  Vinnu við tjónamat og skýrslugerð er ekki lokið.  Jákvæð áhrif af gosinu gætu þó verið þau að askan er steinefnarík svo efnainnihald fóðurs eykst.  Varðandi framtíðina þarf að vinna sem best úr því sem við höfum.  Spurningar framtíðarinnar eru, t.d. vilja bændur Búnaðarsambandið í sinni núverandi mynd?  Samvinna við bændur verður að vera okkur að leiðarljósi, við höldum að við séum á réttri leið og horfum fram á við.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Fundarstjóri tók undir hversu óvenjulegt árið var og gaf því næst orðið laust og hvatti fundarmenn til að taka til máls.
Þórir Jónsson, Selalæk tók undir með Sveini og Maríu og var ánægður með skýrsluna.  Við stöndum á tímamótum og hann var ánægður með þjónustu Búnaðarsambandsins.  Hann hvatti bændur til að vera duglegir að nýta sér þjónustuna svo hún skili sér sem best og verði bændum til gagns.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands þakkaði fyrir samstarfið á síðasta starfsári.  Samantekt og skýrsla formanns í Ársritinu er mjög góð og vildi þakka fyrir gott rit.  Bændasamtökin og bændur voru óviðbúin svona gosi og við erum líka óvön mengunarslysum, eins og því sem er að gerast á Vestfjörðum.  Haraldur var ánægður með tillögu frá sunnlendingum inn á Búnaðarþing varðandi viðbragðsáætlun fyrir búfé, sem er í vinnslu. Slíkar áætlanir eru til hjá öðrum þjóðum.  Díoxíðmengun fyrir vestan og fálmkennd viðbrögð komu á óvart.  Stofnanir sem hafa með umhverfismál létu sig hverfa og virkuðu ekki og tóku ekki á málunum sem skyldi.  Gildi félagsskapar eins og Búnaðarsambandsins er þverfaglegur félagsskapur allra bænda, en er ekki ræktað að því marki sem þarf.  Haraldur var ánægður með að Búnaðarsambandið virkaði raunverulega vel fyrir bændur á gossvæðinu.  Hann hvatti til umræðu meðal bænda um nýju jarðalögin og sá fyrir sér sérstakt málþing meðal bænda um jarðalögin.  Hvað þau þýða og hvernig við viljum sjá búskap á komandi árum, tvö búnaðarsambönd hafa verið með svona málþing.  Haraldur kom inn á hver sé þróun búnaðarsambanda, en næstu tvö ár er ráðgjafaþjónusta á skilorði. Það verða minni fjármunir frá hinu opinbera en þörfin kannski aldrei meiri.  Haraldur bað fyrir kveðju frá Eiríki Blöndal með þakklæti fyrir samstarfið á árinu, Eiríkur er maður sem hugsar í lausnum og er með ógrynni hugmynda fyrir samtök bænda.  Haraldur Benediktsson þakkaði samstarfið á liðnu ári.

Matarhlé fundi frestað.

6. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Ágúst Rúnarsson, formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 52 fulltrúar frá 38 aðildarfélögum, þar af 32 búnaðarfélög og 2 af þeim með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 6 eiga rétt á 18 fulltrúum. Kjörbréf lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bragi Ásgeirsson, Selparti
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Björn Harðarson, Holti
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
María Hauksdóttir, Geirakoti.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Baldur Indriði Sveinsson, Litla-Ármóti
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Bjarni Pálsson, Syðri-Gróf
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Björgvin Þór Harðarson, Laxárdal 1a.
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum.
Sigurjón Sigurðsson, Kotlaugum.
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti.
Theódór Vilmundarson, Efsta-Dal.
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.
Búnaðarfélag Grafningshrepps
Enginn fulltrúi
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Pétur Guðmundsson, Hvammi.
Búnaðarfélag Eyrarbakka
Enginn fulltrúi
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.
Búnaðarfélag A- Landeyjahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag V-Landeyjahrepps
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag  Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Ásgerður Sjöfn Guðmundsdóttir, Lambhaga.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Sigurður Sæmundsson, Skeiðvöllum.
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Ásahrepps
Egill Sigurðsson, Berustöðum.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestbakka.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.
Búnaðarfélag Álftavers
Gottsveinn Eggertsson, Holti.
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Einar Jónsson, Efri-Steinsmýri.
Búnaðarfélag Skaftártungu
Sigurður Ómar Gíslason, Hemru.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þ. Gunnarsson, Giljum.
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Sigurjón Eyjólfsson, Eystri- Pétursey.
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðarkoti.
Bjarni Másson, Háholti.
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Sigurður Kristinsson, Hörgslandi II.
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Stefán Guðmundsson, Ásaskóla.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Sveinn Steinarsson, Litlalandi
Helgi Eggertsson, Kjarri.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum.
Birgir Leó Ólafsson, Borgarbraut 8.
Félag kúabænda á Suðurlandi
Þórir Jónsson, Selalæk.
Ólafur Helgason, Hraunkoti.
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.
Mættir eru 44 fulltrúar af 52 sem rétt hafa til setu. Fundurinn er því lögmætur.
7. Afstaða BÍ til aðildarviðræðna að ESB. Haraldur Benediktsson
Haraldur byrjaði á að segja að BÍ beri að kynna aðildarfélögum stefnu sína í þessum umræðum.  Ákveðnar útlínur, svokallaðar varnarlínur er búið að marka fyrir stjórnvöld svo ekki fari illa.  BÍ er áfram á móti aðild að ESB og sú afstaða hefur ekkert breyst.  Í haust þarf að taka afstöðu til einstakra þátta, þegar hinar eiginlegu aðildarviðræður hefjast.  Þetta er pólitískt erfitt umhverfi fyrir stjórnvöld, sem og BÍ, Ísland og íslensk stjórnvöld vilja hafa fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB.  Í aðildarferlinu er mikilvægt að afrita ekki samninga frá Finnum eða Svíum, til að nota í okkar samninga, heldur byggja okkar samninga upp frá okkar þörfum.
Haraldur fór yfir varnarlínur BÍ vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.
1. Réttur Íslands til að vernda heilsu manna dýra og plantna.
Meginatriði að komi til aðildar verði innflutningsheimildir óbreyttar frá því sem þær verða þegar að lög nr. 143/2009 um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB hafa öðlast gildi að fullu.  Jafnframt verð heimilt að halda takmörkunum á plöntuinnflutningi óbreyttum, sbr.rgl.nr. 189/1990.  Íslenskum stjórnvöldum verði ennfremur heimilt að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda og verja innlendu búfjárkynin.  Varanleg ákvæði þessa efnis verði hluti af aðildarsamningi.
2. Frelsi til að ríkisstyrkja landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað.
Meginatriði að komi til aðildar verði fullt tillit tekið til sérstöðu landsins í aðildarsamningi, án tillits til fyrri fordæma.  Svigrúm verði til þess að tryggja stöðu byggða sem byggja á landbúnaði og úrvinnslu afurða hans þannig að hún verði ekki verri en fyrir aðild.  Þannig er lágmarkskrafa að ríkisstyrkir verði a.m.k. með sama hætti og fyrir aðild.  Nægilegt og skýrt svigrúm verði til að styðja við framleiðslu skilgreindra sóknarafurða sem hafa skírskotun til íslenskra framleiðsluaðstæðna.  Svigrúm verði fyrir sérstakar aðgerðir til að verja íslenska búvöruframleiðslu vegna smæðar innlenda markaðarins.
3. Heimild til að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB.
Tollvernd er leiðrétting á samkeppnisaðstæðum sem eru léttari sunnar á hnettinum.  Við viljum heimild til áframhaldandi tollverndar.  Fjarri mörkuðum er sérstaða Íslands.  Matvörumarkaðurinn hér er örmarkaður, eins og borg í Evrópu.  Fákeppni er á smásölumarkaði og ólíklegt að það breytist. Hér hefur verið opið fyrir erlenda aðila undanfarin ár en hingað hefur enginn komið, stóru keðjurnar ráða hér áfram ríkjum.
Meginatriði að komi til aðildar hafi íslensk stjórnvöld áfram heimild til að leggja tolla á búvörur frá ESB löndum allt að því sem heimildir til að leggja á tolla samkvæmt skuldbindingum okkar innan WTO gefa svigrúm til. Verði breytingar á reglum WTO þannig að heimildir til álagningar tolla verði skertar þarf að bæta það með öðrum hætti. Hagsmuna íslensks landbúnaðar verði gætt í hvívetna vegna smæðar markaðarins og fjarlægðar frá hinum eiginlega innri markaði ESB.
4. Réttur til að tryggja félagslega stöðu og afkomu bænda.
Félagsleg staða bænda tryggð varðandi rekstraráætlanir sem byggðar eru á áætlunum undanfarinna ára.  Meginatriði að komi til aðildar verði tryggt að bændum verði bætt tjón vegna fjárfestinga sem ljóst er að verði verðlitlar eða verðlausar við aðild.  Samtökum bænda verði jafnframt tryggð sambærileg staða og nú. Þetta þýðir að heimila verður og tryggja innlenda ríkisstyrki nægilega til þess að ná þessum markmiðum.
5. Styrkir til landbúnaðar verði þeir sömu hvar sem er á landinu.
Meginatriði að komi til aðildar verði stuðningur við landbúnað óháður því hvar á landinu starfsemin er.  Það er grundvallarkrafa að landið verði skilgreint sem eitt svæði með tilliti til ríkisstyrkja og styrkja úr Evrópska tryggingasjóðnum fyrir landbúnað sem fjármagnar markaðsskipulagið og Evrópska landbúnaðarsjóðnum, til þróunar landbúnaðarhéraða og að þetta verði tryggt með varanlegum hætti í aðildarsamningi.
6. Réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn rándýrum og meindýrum.
Ef aðild verður samþykkt yrði refurinn friðaður og verndun hlunninda ábótavant. Meginatriði að komi til aðildar verði ekki settar skorður við hefðbundinni hlunnindanýtingu eða aðgerðir gegn meindýrum, hvort sem þau eru skilgreind sem meindýr innan ESB eða ekki.  Það er grundvallarkrafa að þetta ákvæði verði hluti af aðildarsamningi.
7.  Eignarréttarlegri stöðu bænda og landeigenda verði ekki raskað og aðgengi að góðu ræktunarlandi tryggt.
Meginatriði að komi til aðildar hafi stjórnvöld fullt svigrúm til að skilgreina ákveðin landsvæði sem landbúnaðarland sem ekki megi taka til annarra nota.  Varanlegt ákvæði í aðildarsamningi verði sett til að tryggja þetta.
Að lokum minnti Haraldur á að lestin er á fleygiferð og bara rétt að byrja sú umræða sem koma skal í umræðum um inngöngu í ESB.  Icesave umræðan var bara létt upphitun fyrir komandi tíma og hvatti bændur til að vera virka í þeirri umræðu.

 

8. Umræður og fyrirspurnir
Fundarstjóri gaf orðið laust.
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti vakti athygli á að það er fjallað um heilsu manna, dýra og gróðurs, en hvað með plöntuvernd?
Sigurður Sæmundsson, Skeiðvöllum taldi mikilvægt að BÍ haldi áfram að uppfræða okkur bændur um aðildarumsókn í ESB.  Oft erfitt að trúa og treysta því sem stjórnmálamenn segja.  Innflutningur á dýrum er ekki leyfður og hrossabændur að súpa seyðið af smávægilegum innflutningi á reiðtygjum.  Leyfður innflutningur á gæludýrum, bara fyrsta skrefið.  6. Varnarlínan, ef ekki má veiða refi eða meindýr hvernig endar það.
Haraldur Benediktsson svaraði Guðrúnu Stefánsdóttur og plöntuvernd verður sett inn í 3.gr. Gæludýrareglugerðinni er laumað inn sem hluti af reglugerðum EES.  Tilslökun verður á næstunni á gæludýrainnflutningi og við vitum ekki hvar það endar.  Það er nauðsynlegt að fylgja almennri skynsemi og trúin á stjórnmálamönnum má vera efablandin.  Hvaða samninganefnd mundi viðurkenna það að vera ekki með góðan samning, svo við verðum að búa okkur undir að heyra að við séum með besta ríkjasamning sem gerður hefur verið.   Við verðum að treysta á okkur sjáf og hafa gagnrýna hugsun að leiðarljósi.
Haraldur sagði mikilvægt að hafa alltaf Evrópuréttarlögfræðing sem les yfir öll plögg sem send eru frá okkur og þessar  7 línur viljum við halda fast í. Haraldur þakkaði umræður og  treystir á stuðning bænda og samstöðu stéttarinnar.

9. Túnkortagerð
Halla Kjartansdóttir kom fyrst inn á að góð túnkort eru nauðsynleg markvissrar ræktunar sem og fyrir góðar áburðar- og beitaráætlanir.  Frá því hún hóf störf hafa rúmlega 40 túnkort verið gerð og fyrirliggjandi er biðlisti.  Grétar Már Þorkelsson, Kristján Bjarndal Jónsson og Pétur Halldórsson eru líka í túnkortagerðinni.
Túnkortin eru gerð eftir myndum frá Loftmyndum ehf. Flestar myndirnar frá 2004-2010 misjafnt eftir svæðum.  Útlínurnar eru teiknaðar eftir grunninum og eldri kort höfð til hliðsjónar.  Bóndi les yfir og leiðréttir útlínur, skiptingu, númer og spildunöfn.  Stundum þarf að fara á staðinn til að taka GPS punkta.  Samskipti bónda og ráðunauts ráða því hversu langan tíma tekur að gera kortið.
Bóndinn er að fá 4 kort í stærðum A4 og A3 eitt plastað og eitt óplastað og möppu undir allt.  Túnkort og vinnukort sent í vefpósti. Við uppfærslu fara svo teiknaðar túnspildur inn á jörð.is með loftmynd og þar er hægt að vinna með kortið að vild.  Kostnaður er mikill í byrjun en svo mun minni við breytingar seinna meir.

10. Tillögur lagðar fram og kynntar.
Sveinn kynnti nefndir og sagði að nefndirnar yrðu 6 með hverri nefnd er 1 ráðunautur.  Menn velja sjálfir nefndir, allsherjarnefnd verður þó undir stjórn Egils Sigurðssonar.
Sveinn vildi ekki endilega að nefndir skili tillögum en einhvern úrdrátt og mat á starfseminni væri gott að fá. Nefndir hefja störf.

Kaffihlé

11. Kosningar.
Kosning tveggja stjórnarmanna úr Árnessýslu.  Guðbjörg Jónsdóttir, Læk og  Gunnar Eiríksson,Túnsbergi gáfu bæði kost á sér aftur og fékk Guðbjörg 37 atkvæði og Gunnar 38 atkvæði, Helgi Eggertsson, Kjarri 1 atkvæði. Varamenn María Hauksdóttir, Geirakoti og Helgi Eggertsson, Kjarri voru kosnir með lófaklappi sem og skoðunarmenn reikninga Hrafnkell Karlsson, Hrauni og Ólafur Kristjánsson, Geirakoti og löggiltur endurskoðandi var ennfremur kosinn með lófaklappi, Arnór Eggertsson.

12. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður og afgreiðsla.
Fyrir allsherjarnefnd fór Egill Sigurðsson, fyrir fjárhagsnefnd fór Theódór Vilmundarson,  fyrir sauðfjárræktarnefnd fór Erlendur Ingvarsson, fyrir jarðræktarnefnd fór Grétar Már Þorkelsson, fyrir hrossaræktarnefnd fór Sveinn Steinarsson, fyrir nautgriparæktarnefnd fór Þórir Jónsson.

Tillögur allsherjarnefndar voru fyrst lagðar fram. Egill Sigurðsson, Berustöðum, bar upp tillögur frá allsherjarnefnd.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 beinir því til LBHÍ að rekið sé öflugt tilraunastarf á Stóra-Ármóti og þar sé ætíð til staðar nægileg starfslið til að sinna tilraunum.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 beinir því til Bændasamtaka Íslands að þau hlutist til um að hafa áhrif á framkvæmd fóðureftirlits hjá bændum sem MAST er falið að hefja í sveitafélögunum Ölfusi, Ásahrepp og Rangárþingi eystra. Bændabýli munu framvegis  teljast fóðurfyrirtæki. Eftirlitið er í samræmi við reglugerð nr. 107/2010, en þar er innleidd reglugerð EB nr. 183/2005 um kröfur er varða hollustu fóðurs. Mótmælt er framkvæmd eftirlitsins sem fer af stað án kynningar svo og gjaldtöku. Í reglugerðinni er ekki tiltekin gjaldskrá fyrir eftirlitið eða kostnað sem bændur eiga að bera.  Könnuð verði forsenda gjaldtöku.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá allsherjarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 átelur þann seinagang sem viðgengist hefur við lausnir á skuldamálum bænda. Fundurinn telur afar brýnt að lánastofnanir hraði úrlausnum þessara mála. Jafnframt að jafnræði lánþega verði tryggt gagnvart lánastofnunum varðandi aðferðafræði við lausnir. Litið verði á verðmæti rekstrar sem grundvallaratriði að lausn í einstökum málum.

Greinargerð:
Nú eru liðnir rúmlega 30 mánuðir frá því bankahrun átti sér stað á Íslandi. Enn eru skuldamál margra bænda í óvissu. Nýlega fór af stað endurútreikningar á gengistryggðum lánum bænda sem eru í viðskiptum við Landsbanka Íslands og Íslandsbanka. Grundvöllur þeirra byggir á lögum nr. 151/2010 um uppgjör lána einstaklinga sem samþykktar voru á Alþingi 22. desember 2010. Ekkert slíkt virðist vera í gangi hjá Arionbanka. Það er ólíðandi að  ekki sé unnið á samræmdan hátt að þessum málum meðal fjármálafyrirtækja.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá allsherjarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 lýsir yfir fullum stuðningi við afstöðu og vinnu Bændasamtaka Íslands vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.  Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir  um að hafna beri aðild að ESB.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá allsherjarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 hvetur stjórn Bændasamtakanna að endurskoða tímasetningu  Búnaðarþings með það að markmiði að aðalfundir aðildarfélaganna og búnaðarsambanda sé lokið fyrir Búnaðarþing.
Greinargerð:
Mikilvægt er að inn á Búnaðarþing komi þau mál sem aðildarfélögin og búnaðarsambönd  hafa fjallað um á aðalfundum sínum.
Guðbjörg Jónsdóttir, Læk kvaddi sér hljóðs og skýrði út tímasetningu á Búnaðarþingi. Það þarf að vera á þessum tíma til að koma málefnum inn á Alþingi.
Tillagan samþykkt samhljóða
Tillaga nr. 6 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 beinir því til stjórnar að kynna sér nýútkomin drög að breytingum á jarðalögum og nýta umsagnarrétt sinn. Að BSSL standi fyrir kynningu meðal félagsmanna.

Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum kvaddi sér hljóðs og mælti með að BSSL efndi til kynningafunda og lagði fram svohljóðandi tillögu.

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 beinir því til stjórnar að kynna sér nýútkomin drög að breytingum á jarðalögum og nýta umsagnarrétt sinn. Að BSSL standi fyrir kynningarfundum meðal félagsmanna.

Tillagan samþykkt samhljóða

Formaður fjárhagsnefndar Theódór Vilmundarson, Efsta-Dal bar upp tillögur nefndarinnar.

Tillaga nr. 7 frá fjárhagsnefnd.

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2011
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 8 frá fjárhagsnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011  leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2011 verði sæðingagjöld  kr. 1.200,- á kú.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 9 frá fjárhagsnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir óbreytt árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands, alls kr. 1.000,- á félagsmann.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 10 frá fjárhagsnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna.  Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr. 8.750,-) x 2, (þ.e. nú kr 17.500,-)
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 11 frá fjárhagsnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu í apríl 2005.  Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs.  Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Fyrir hönd jarðræktarnefndar bar Grétar Már Þorkelsson upp tillögur nefndarinnar.

Tillaga nr. 12 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að gefa út árlega, rit með ítarlegum upplýsingum um yrki á grastegundum, korni, belgjurtum og grænfóðri. Einnig ætti ritið að innihalda mikilvægar upplýsingar eins og niðurstöður jarðræktarrannsókna, þarfir fyrrgreindra plantna og skortseinkenni með myndrænum hætti.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 13 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, leggur þunga áherslu á að Bændasamtök Íslands vinni úr framkomnum athugasemdum varðandi umbætur á jarðræktarforritinu jörð.is.  Að Bændasamtök Íslands leggi jafnframt áherslu á að haldið verði áfram vinnu við frekari þróun forritsins. Að einnig verði gerð aðgengileg handbók eða leiðbeiningar um notkun á forritinu.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 14 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, skorar á alla áburðarsala að lengja þann tíma frá því að áburðarverð eru birt, þar til bændur þurfa að skila inn pöntun í að lágmarki 1 mánuð. Einnig að áburðarsalar standi við gefin loforð hvað varðar pantanir á áburði. Að áburðarsalar hafi meira samráð við fagaðila í jarðrækt hvað varðar innihald og efnahlutföll í áburði.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 15 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, hvetur Landbúnaðarháskóla Íslands til jarðræktartilrauna á Stóra-Ármóti, með áherslu á áburðartilraunir. Einnig til frekara samstarfs milli bænda og rannsóknaraðila í jarðrækt um rannsóknir eða athuganir sem víðast á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Frá sauðfjárræktarnefnd var það Erlendur Ingvarsson, Skarði sem bar upp tillögurnar.  Hann byrjaði þó á að bera fram kvörtun þess efnis að í fundargögnum vantar myndir  tengdar sauðfjárrækt.

Tillaga nr.16 frá sauðfjárræktarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15.apríl 2011, lýsir óánægju með að vorfundir voru ekki haldnir og skorar á stjórn Búnaðarsamband Suðurlands að það komi ekki fyrir aftur.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.17 frá sauðfjárræktarnefnd.
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15.apríl 2011, beinir því til sveitastjórna á starfssvæðinu að fylgja eftir lögbundnum skyldum varðandi fjallskil á afréttum og heimalöndum.

Fundarmenn óskuðu eftir frekari skýringu.  Erlendur kom upp og sagði frá að það væru vandamál með smalanir víða um land.  Fullt af jörðum sem eru hreppajarðir og sauðfjársmölun ekki sinnt.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.18 frá sauðfjárræktarnefnd
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15.apríl 2011, beinir því til stjórnar að flýta birtingu á upplýsingum úr afkvæmarannsóknum á sínu starfssvæði.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.19 frá sauðfjárræktarnefnd
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15.apríl 2011, beinir því til sauðfjárræktarnefndar Búnaðarsambands Suðurlands að endurskoða útreikninga á veturgömlum hrútum fyrir verðlaunaafhendingar.  Þá sérstaklega að taka tillit til þroska lambanna.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Sveinn Steinarsson, Litlalandi kynnti tillögur hrossaræktarnefndar.  Hann byrjaði á að þakka góða framsögu og þakkaði stjórninni fyrir aukna athygli á Hrossaræktarsamtökunum.

Tillaga nr.20 frá hrossaræktarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, lýsir yfir þeirri skoðun sinni að gott samræmi á dómum á milli kynbótasýninga sé grundvallaratriði, og fagnar þeim skrefum sem stigin hafa verið í þá átt með því að formenn dómnefnda dæmi saman í upphafi dómsárs.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.21 frá hrossaræktarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands varðandi sýningarhald kynbótahrossa:
a) Að aðstæður á sýningarstöðum kynbótahrossa séu samræmdar, svo sem lengd sýningarbrauta og fjarlægð dómpalls frá sýningarbraut.
b) Að aðstæður og upplýsingaflæði til áhorfenda sé með sem bestum hætti.
c) Að afhendingu verðlauna verði gert eins hátt undir höfði og hægt er.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.22 frá hrossaræktarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands að beita sér fyrir því að Bændasamtök Íslands geri það  mögulegt að skrá kynbótahross í kynbótasýningu í gegnum Worldfeng.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr.23 frá hrossaræktarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, tekur undir tillögu Landsmótsnefndar þar sem lýst er yfir þeirri skoðun að eðlilegt sé að halda tvö Landsmót sunnan heiða á móti einu Landsmóti norðan heiða.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Þórir Jónsson, Selalæk kynnti tillögu nautgriparæktarnefndar.

Tillaga nr.24 frá nautgriparæktarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011,   mótmælir hugmyndum um útjöfnun á sæðingagjöldum á landinu öllu.  Telur fundurinn að lítil þátttaka á ýmsum landssvæðum sé m.a. ástæða hárra sæðingagjalda þar og ekki sanngjarnt að það sé borið uppi af þeim sem hafa náð upp góðri þátttöku í sæðingastarfseminni.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Þórir fór yfir nokkra punkta sem nautgriparæktarnefndin tók saman varðandi greinina.
• Huppa er of hæg og lítil framför þar. Í Huppu mætti koma fleiri hlutum á framfæri og mikið verk þar óunnið. Notendur eru ekki nógu duglegir að vinna í forritinu til að segja hvað betur má fara.
• Varðandi kúaskoðun er nokkur sátt með þá framkvæmd en mikilvægt að ná skoðun á fyrsta mjaltaskeiði.
• Kúasýning í lok ágúst á Hellu, formið á henni verður birt í næsta fréttabréfi BSSL.
• Kynning og fræðsla kom til tals, mikilvægt að hafa niðurstöður á ungnautum, bæði á netinu og blöðum, sem oft liggja í fjósinu.
• Sæðingastarfsemin til fyrirmyndar á Suðurlandi.  Mætti gera meira af því að sæða kvígurnar og minnka notkun á nautum.
• Rekstrarráðgjöf á erfiðum tímum, Sunnuverkefnið mikilvægt og verið er að vinna að líkani að kostnaði við fóðuröflun, sem er grunnur að betri búrekstri.
• Niðurstöðurnar verða ekki góðar nema ráðunautarnir fái verkefni að vinna.
• Kynbótastöð Suðurlands er með klaufskurð sem mætti nýta betur með samvinnu á milli búnaðarfélaga.
• Í sambandi við Stóra-Ármót ítrekar nefndin að þar verði tilraunastarf eflt til muna.  Fjársvelti hamlar tilraunastarfseminni.

13. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningur Búnaðarsamband Suðurlands fyrir 2010 samþykktur samhljóða

14. Önnur mál
Sveinn Sigurmundsson kvaddi sér hljóðs varðandi þetta nýja fyrirkomulag á nefndarskipan.  Það er gott að brjóta nefndirnar upp og sitja ekki í sama farinu.  Sveinn vildi líka koma því á framfæri að hann hefði gleymt að minnast á það í dag að árangurinn á Stóra-Ármóti má rekja til úrvals gróffóðurs.
Erlendur Ingvarsson, Skarði lýsti ánægju með fyrirkomulag á fundinum og fannst fínt að geta fjallað um sérhæfðari málaflokka.
Bjarni Másson, Háholti tók undir orð Erlendar og vildi spyrja hvenær bændur á Suðurlandi fengju starfandi sauðfjárræktarráðunaut.
Sigurður Sæmundsson, Skeiðvöllum var á sínum fyrsta fundi og fannst hann áhugaverður, en vildi þó aðeins að minna á að það vantaði betri skýringar á sumum tillögum.
Elín Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti þakkaði fyrir þetta nýja form á fundinum.  Hún vildi þó beina spurningum til BÍ og Búnaðarsambandsins en fékk BÍ ekki fóðureftirlitsgögnin til umsagnar?  Eru Búnaðarsambandið eða BÍ ekki að fá nein frumvörp að lögum til umsagnar?
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal vildi ítreka mikilvægi túnkorta.  Það sannaðist best í fyrra þegar eldgosið í Eyjafjallajökli eyðilagði hluta af túnunum.  Hann var búinn að fá sér túnkort 2009 og vissi því vel hvar túnin voru sem hann missti. Það gerir þó enginn ráð fyrir hamförum af þessu tagi en gott að vera með teikningar í höndunum sem sanna hvernig landið liggur.
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi þakkaði endurkjör og vildi ræða breytta nefndarskipan og hrósaði mörgum tillögum og velti fyri sér hvort mætti eyða meiri tíma í framsögu og skýringu á tillögum.
Sveinn Sigurmundsson svaraði Bjarna Mássyni en ófremdarástand er í sauðfjárræktinni, en Berglind Guðgeirsdóttir, Skarði og Jón Viðar Jónmundsson hjá BÍ hafa hjálpað okkur mikið.
Guðbjörg Jónsdóttir, svaraði varðandi umsagnir að fóðureftirlit væri hluti að matvælafrumvarpinu.  Hún þakkaði ennfremur fyrir endurkjör og hrósaði nefndarskipan.
María Hauksdóttir þakkaði fundarmönnum fyrir fundarsetu og gaf Guðbjörgu Jónsdóttur orðið.

15. Fundarslit.
Guðbjörg Jónsdóttir þakkaði starfsmönnum fundarins Maríu Hauksdóttur og Helgu Sigurðardóttur, sem og fulltrúum fyrir góðan fund og sleit fundi.

Fundið slitið kl. 18:09
Helga Sigurðardóttir.

back to top