Uppsagnir á Hvanneyri
Allur búrekstur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri verður færður undan skólanum og yfir í sérstakt rekstrarfélag um næstu áramót. Við þessa breytingu var ellefu starfsmönnum skólans sagt upp störfum, þar af fimm sem tengjast búrekstrinum.
Landbúnaðarháskólinn hefur rekið 70 kúa fjós á Hvanneyri og um 700 kinda fjárbú á Hesti í Borgarfirði. Ný útihús er á báðum stöðum og nýr mjaltaþjónn sér um mjaltir í Hvanneyrarfjósinu.
Þorvaldur T. Jónsson, rekstrarstjóri Landbúnaðarháskólans, segir að það fari best á því að skilja búreksturinn frá rekstri skólans. Það auki sveigjanleika í búrekstrinum og einfaldi rekstur skólans. Gerður verður þjónustusamningur við rekstrarfélagið enda þurfi skólinn á fjósinu á Hvanneyri og fjárhúsinu á Hesti að halda til að geta stundað rannsóknir og kennslu. Skólinn komi til með að eiga jörðina áfram og sömuleiðis fasteignirnar. Rekstrarfélagið komi til með að borga skólanum leigu, en skólinn borgi á móti fyrir þá þjónustu sem hann kaupi af félaginu. Þessi breyting tekur gildi um áramót.
Þorvaldur segir meðal þeirra starfa sem hafi verið lögð niður séu störf í kennslu. Hann segir að breytingarnar sem hafi verið ákveðnar hafi áhrif störf 33 starfsmanna skólans.
Landbúnaðarháskólinn rak einnig fjós á Möðruvöllum í Eyjafirði. Það er nú rekið af sjálfstæðu félagi.