Útlit fyrir versnandi kjör bænda
Útgjöld til landbúnaðarmála verða að lækka á næsta ári eins og aðrir útgjaldaliðir ríkisins, að sögn Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Bændur standa því frammi fyrir 9% lækkun en beingreiðslur til þeirra eru stærsti liðurinn.
Bændasamtökin hafa mótmælt þessari skerðingu. Ríkið hafi gert samning við bændur á síðasta ári og við hann verði að standa. Í þessu sambandi má einnig nefna að 1. júlí s.l. hætti ríkið að greiða 8% mótframlag í Lífeyrissjóð bænda sem er bein tekjuskerðing hjá bændum.
„Við höfum mótmælt þessari kröfu og bent á að samningurinn hafi farið í atkvæðagreiðslu bæði á Alþingi og meðal bænda. Allar þessar forsendur lágu fyrir þegar samningurinn var gerður,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, í Morgunblaðinu í dag.
Það er því allt útlit fyrir að kjör bænda fari hratt versnandi á næstu misserum.