Vatnavextir í Hvítá
Lögreglan á Selfossi varar bændur og þá sem eiga hagsmuna að gæta að vatnavöxtum í Hvítá. Fylgst er gaumgæfilega með vatnavöxtum í ánni í dag. „Þetta er ekki orðið að almannavarnaástandi enn sem komið er,“ sagði Svanur Kristinsson varðstjóri á Selfossi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Rennsli efst í ánni er komið upp í 575 rúmmetra við Fremstaver upp við Bláfell og er reiknað með að vatnavextirnir verið komnir að Selfossi seinni hluta dags.
Svanur vildi koma þeim tilmælum til bænda og annarra sem eiga hagsmuna að gæta á þekktum flóðasvæðum að huga að eigum sínum og búpening.
Skemmst er að minnast flóðanna sem urðu í Hvítá og Ölfusá í fyrra en þá fóru þær báðar víða yfir bakka sína í miklum vatnavöxtum.