Veggirðingar með þjóðvegum

Á aðalfundi BSSL 2009 var samþykkt eftirfarandi ályktun: „Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á stjórn BSSL að gerð verði úttekt á samskiptum bænda, vegagerðar og sveitastjórna varðandi girðingar með þjóðvegi 1 á svæði BSSL“. Í kjölfar ályktunarinnar hefur nokkuð verið unnið í málinu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Búnaðarsambandið hefur aflað hafa fjögur sveitarfélög á landinu samið við Vegagerðina um að hún annist og kosti að öllu leyti viðhald girðinga með þjóðvegi 1 í viðkomandi sveitarfélagi. Þrjú þessara sveitarfélaga eru á starfssvæði BSSL, þ.e. Hornafjörður, Mýrdalshreppur og Ölfus en auk þeirra hefur Húnaþing vestra gert slíkt samkomulag. Bann við lausagöngu búfjár innan vegsvæðis þjóðvegar 1 í Hornafirði hefur þó ekki enn tekið gildi þar sem Vegagerðin er enn að girða þjóðveginn af í samræmi við samkomulagið og fyrr getur slíkt bann við lausagöngu ekki tekið gildi.

Vitað er að Flóahreppur hugar að gerð á líku samkomulagi við Vegagerðina og e.t.v. fleiri sveitarfélög.

Grundvöllur að slíku samkomulagi er 5. liður 52 greinar vegalaga nr. 80 frá 2007 sem fjallar um framkvæmd viðhalds og kostnaðarskiptingar. Þar segir: „Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag og landeiganda ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum köflum stofn- og tengivega, enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð.“


Við gerð þessara samkomulaga hefur Vegagerðin framfylgt þeirri lagakröfu að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á viðkomandi vegsvæði og jafnframt að sveitarfélagið skipi og kosti eftirlitsmann sem fjarlægi búfé af því vegsvæði sem bannið nær yfir ef þess þarf. Hér skal áréttað að sveitarfélög þurfa ekki að banna lausagöngu búfjár í öllu sveitarfélaginu heldur má tilgreina einstök vegsvæði ef vill.


Ef sveitarfélag bannar lausagöngu búfjár á vegsvæði sem liggur í gegnum sveitarfélagið aukast líkur á að bótaábyrgð tjóna falli á búfjáreigendur og/eða tryggingarfélög þeirra. Einnig gæti mögulega reynt á 56. grein vegalaga þar sem segir orðrétt: „Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.“

Samkvæmt  þessu gæti því reynt á bótaskyldu Vegagerðarinnar ef samkomulag er í gildi um að Vegagerðin sjái um viðhald girðinga en sannað þyki að því hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið hjá tryggingarfélögunum geta búfjáreigendur keypt sér ábyrgðartryggingu gegn því tjóni sem búfé í þeirra eigu veldur þriðja aðila. Í einhverjum tilvikum, s.s. hjá þeim bændum sem keypt hafa sérstakar landbúnaðartryggingar, er líklegt að þessi ábyrgðartrygging búfjár sé innifalin í tryggingarpakkanum. Ástæða er til að hvetja bændur til að kanna tryggingarskilmála sína með þetta í huga, óháð því hvort lausaganga búfjár sé bönnuð í viðkomandi sveitarfélagi eða ekki.


Vegalög nr. 80 frá 2007


back to top