Vextirnir eru að sliga bændur

Kostnaður við mjólkurframleiðsluna var langmestur á Íslandi árið 2007 ef miðað er við flestöll lönd í heiminum, samkvæmt Dairy Report 2008.
Í yfirliti frá norskri stofnun sem stundar rannsóknir í landbúnaðarhagfræði kemur fram að Íslendingar hafi mun dýrari framleiðslu miðað við meðalstærð á búi en aðrar þjóðir. Íslendingar hafi um 40 kýr að meðaltali og framleiðslan kosti um 187 krónur íslenskar á kílóið. Mjólkurframleiðslan í Sviss sé næstdýrust. Þar séu búin helmingi minni og kostnaðurinn um 136 krónur á kílóið af mjólkinni. Norðmenn eru í fjórða sæti yfir dýrustu framleiðsluna. Í Noregi eru búin svipuð að stærð og í Sviss og þar nemur kostnaðurinn rúmum 100 krónum á kílóið. Stærst eru hins vegar kúabúin á Nýja-Sjálandi með um 307 kýr og þar er kostnaðurinn langminnstur, tæpar 34 krónur á kílóið.

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökunum, segir að tölurnar séu kunnuglegar. Mjólkurframleiðsla sé dýrari hér en annars staðar því að fjármagnskostnaðurinn sé margfalt hærri hér. „Annars vegar er það þessi hái vaxtakostnaður sem atvinnulífið býr við og hins vegar meiri fjárbinding í byggingum og vélum heldur en þekkist í löndunum í kringum okkur. Vetur eru oft slæmir hér og það þarf að leggja meira í byggingar, til dæmis vegna jarðskjálfta. Síðan er minni framleiðsla á mjólk á hvern fermetra í fjósunum heldur en þar sem kynin eru afurðameiri.“


back to top