Viðlagatrygging bætir tjón

Viðlagatrygging bætir tjón af völdum flóða og eldgosa. Bændur sem orðið hafa fyrir tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og flóðanna í Markarfljóti og Svaðbælisá geta því leitað til Viðlagatryggingar.
Viðlagatrygging er lögbundin náttúruhamfaratrygging sem bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Viðlagatrygging bætir ekki tjón af völdum annarra náttúruhamfara, t.d. af völdum ofsaveðurs.
Samkvæmt heimasíðu Viðlagatryggingu eru bótaskyldir tjónsatburðir eftirfarandi:

Eldgos, t.d er hraun eða gjóska veldur skemmdum eða eyðileggingu á tryggðum munum.


Jarðskjálfti, sem veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.


Skriðufall, þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast.


Snjóflóð merkir snjóskriðu, sem fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast. Það telst ekki vera snjóflóð, þótt þak eða veggir húss sligist eða brotni undan snjó, sem safnist á eða að húsi vegna snjókomu, skafrennings eða foks. Sama á við um aðra muni, sem skemmast með svipuðum hætti.


Vatnsflóð merkir flóð, er verður þegar ár eða lækir flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum. Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð. Sama á við um venjulegt leysingavatn eða flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.


Hvað er tryggt
Viðlagatrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging eins og viðlagatrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna hvort heldur með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir einnig viðlagatrygging. Vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar eru sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.


back to top