VIlja flytja inn holdasæði

Aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti meðal annars áskorun á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis að beita sér af festu og einurð fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem heilbrigðisástand nautgripa er hvað best.
Ástæðan fyrir þessari ósk er sú að mikil skyldleikarækt er í greininni í dag þar sem stofninn er lítill. Bændur telja að þetta torveldi orðið framförum í nautakjötsframleiðslu. „Það er því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að erfðaefni hérlendra holdanautakynja, sérstaklega skoska kynsins Aberdeen Angus, verði endurnýjað svo fljótt sem verða má.“

Ályktun aðalfundar LK í heild:


„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 lýsir ánægju með batnandi afkomu nautakjötsframleiðslunnar á undanförnum mánuðum. Jafnframt er ljóst að erfið afkoma þessarar greinar nautgriparæktarinnar á undanförnum árum hefur haft þau áhrif að framboð sláturgripa nú um stundir er minna en æskilegt væri. Annar áhrifavaldur í því samhengi, er aukning á skyldleikahnignun holdakynjanna, sem torveldar orðið notkun þeirra í nautakjötsframleiðslunni. Það er því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að erfðaefni hérlendra holdanautakynja, sérstaklega Aberdeen Angus, verði endurnýjað svo fljótt sem verða má. Fundurinn hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nú sem fyrr, að beita sér af festu og einurð fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem heilbrigðisástand nautgripa er hvað best. Eðlilegt má telja að slíkur innflutningur yrði á vegum Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, sem er lykilaðili í framkvæmd kynbótastarfs nautgripa hér á landi.
 
Greinargerð
Frá því í júní 2010 hefur nautakjötsverð til framleiðenda hækkað um 15-20%. Það hefur því að nokkru leyti náð að vega upp gríðarlegar kostnaðarhækkanir undanfarinna ára, sérstaklega hækkanir á fóðri og áburði, sem enn sér þó ekki fyrir endann á. Er nú svo komið að framleiðendaverð hér á landi er nánast það sama og í Danmörku, þrátt fyrir að framleiðsluumhverfið sé á flestan hátt hagstæðara þar ytra. Einnig má benda á, að frá síðustu áramótum hefur framleiðendaverð Danish Crown hækkað um 10 af hundraði og hefur ekki verið hærra svo árum skiptir. Til þessa hefur framleiðsla og sala hér á landi verið í ágætu jafnvægi, en fyrstu tvo mánuði yfirstandandi árs hefur slátrun nautgripa dregist saman um 10% vegna minna framboðs sláturgripa. Árangursríkasta leiðin til að bregðast við slíkum aðstæðum er að auka hagræðingarmöguleika greinarinnar, sem leiða mun til bættrar afkomu og þar með aukinnar framleiðslu.
 
Nú eru liðin 17 ár síðan tveir hálfsystkinahópar Angus og Limousine gripa voru fluttir hingað til lands. Væntingar um gripi með betri og hagkvæmari kjötframleiðslueiginleika þessara gripa gengu eftir í öllum atriðum. Eins og gefur að skilja, er skyldleikahnignun farin að standa ræktun þessara kynja mjög fyrir þrifum, sem hefur mjög neikvæð áhrif á rekstur búanna. Endurnýjun erfðaefnisins myndi vega þar talsvert á móti, þar sem umtalsverðar framfarir hafa orðið í ræktun þessara kynja á hartnær tveimur áratugum. Þá er jafnframt ljóst að sú aðferðafræði sem viðhöfð var við innflutning þessara kynja á sínum tíma, kemur ekki til álita vegna mikils kostnaðar sem henni fylgir, auk þess sem hún er úr hófi tímafrek. Við núverandi efnahagsaðstæður er ljóst að ekkert svigrúm er til slíkra framkvæmda. Með breytingu á lögum um innflutning búfjár nr. 54/1990 í desember 2009 (lög nr. 118/2009) var gefið mikilvægt fordæmi í þeim efnum, þar sem var leyfður innflutningur á svínasæði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Notkun á norsku svínasæði hófst hér á landi í febrúar sl. og vænta svínabændur mikils af samstarfi við Norðmenn á sviði svínaræktarinnar. Eðlilegt er að hliðstæðar lagabreytingar verði gerðar gagnvart nautgriparæktinni, þar sem ekki verður við það búið að löggjafarvaldið skekki samkeppnisstöðu búgreinanna með þessum hætti.“


back to top