Vinsælasta nautið?
Á nautaskrá Nautastöðvar BÍ á netinu, www.nautaskra.net, er skemmtilegur pistill eftir Sveinbjörn Eyjólfsson, framkvæmdastjóra Nautastöðvarinnar, þar sem hann veltir fyrir sér hvert sé vinsælasta nautið út frá fjölda útsendra skammta. Grein Sveinbjarnar fer hér á eftir:
„Menn velta því oft upp í samtölum við mig hvað sé vinsælasta nautið. Við því er ekkert einhlítt svar og mörg álitaefni um hvort hægt sé að greina það. Sem tilraun til að svara þessari spurningu leit ég yfir útsendingu áranna 2001 til og með 2007 og kannaði hvaða naut hefðu fengið mesta útsendingu. Í meðfylgjandi töflu má sjá niðurstöðuna en það eru 23 naut sem hafa náð því að úr þeim hafa verið sendir 2.500 skammtar eða fleiri:
Útsent | Útsent | Útsent | Útsent | Útsent | Útsent | Útsent | Útsent | |
Nafn og númer | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | samtals |
Glanni98026 | 1.378 | 2.906 | 1.930 | 6.214 | ||||
Stígur97010 | 236 | 3.324 | 1.920 | 31 | 5.511 | |||
Frískur94026 | 2.105 | 2.349 | 950 | 5.404 | ||||
Fróði96028 | 2.242 | 1.449 | 687 | 757 | 5.135 | |||
Punktur94032 | 2.018 | 3.103 | 5.121 | |||||
Pinkill94013 | 1.787 | 1.266 | 885 | 766 | 329 | 5.033 | ||
Teinn97001 | 2.467 | 1.609 | 858 | 92 | 5.026 | |||
Umbi98036 | 1.874 | 2.168 | 983 | 5.025 | ||||
Hófur96027 | 2.951 | 1.446 | 532 | 4.929 | ||||
Laski00010 | 637 | 4.184 | 4.821 | |||||
Túni95024 | 1.499 | 1.811 | 1.276 | 204 | 4.790 | |||
Þverteinn97032 | 1.983 | 1.282 | 975 | 384 | 4.624 | |||
Hvítingur96032 | 2.598 | 1.440 | 486 | 4.524 | ||||
Soldán95010 | 3.903 | 307 | 4.210 | |||||
Kaðall94017 | 4.042 | 4.042 | ||||||
Hersir97033 | 889 | 672 | 1.391 | 777 | 3.729 | |||
Þollur99008 | 239 | 2.214 | 1.032 | 3.485 | ||||
Sproti95036 | 1.302 | 1.213 | 546 | 120 | 3.181 | |||
Náttfari00035 | 316 | 2.865 | 3.181 | |||||
Fontur98027 | 3.118 | 3.118 | ||||||
Prakkari96007 | 1.641 | 824 | 389 | 2.854 | ||||
Völsungur94006 | 2.786 | 2.786 | ||||||
Þrasi98052 | 596 | 1.140 | 968 | 2.704 |
Á toppnum, ef svomá segja, situr Glanni 980026 frá tilraunabúinu á Stóra Ármóti. Glanni er undan Almari 90019 og Randý. Notkun Glanna er athyglisverð fyrir marga hluta sakir. Hann kemur til útsendingar árið 2005 og þykir þá standa nokkuð að baki ýmsum öðrum nautum úr árgangi 1998 og er ekki valin sem nautsfaðir. Að fengnum meiri upplýsingum er Glanni valinn sem nautsfaðir og fær jafna og mikla notkun í þrjú ár þar til allt sæði úr honum er búið. Glanni nýtur þess í samanburðinum að það var til úr honum óvenju mikið sæði, töluvert meira en að jafnaði er tekið úr nautum, en það dregur ekki úr því að vinsældir hans hjá bændum voru miklar.
Stígur 97010 frá Oddgeirshólum er hér í öðru sæti en hann er undan Óla 8802 og Skessu. Stígur var mjög vinsæll, svo vinsæll að kynbótanefnd þótti ástæða til að setja kvóta á notkun hans fyrsta árið. Það er eina dæmi sem ég veit um að það hafi verið gert. Ómögulegt er að fullyrða nokkuð um það en ég held að hann hefði fengið mun meiri notkun árið 2004 ef þessi kvóti hefði ekki verið settur. Allt sæði úr Stíg kláraðist og líkur til að áhrif hans á íslenska nautgriparækt verði mikil því milli 20 og 30 synir hans hafa komið á stöð sem óreynd naut, svo ekki sé minnst á allar dætur hans sem án efa munu koma fram sem nautsmæður á næstu árum.
Frískur 94026 frá Bryðjuholti er rétt á eftir Stíg. Hann er undan Bassa 86021 og Tusku. Frískur var nautsfaðir og er eitt naut undan honum komið í notkun en það er Villingur 01036 frá Villingadal í Eyjafjarðarsveit. Allt sæði úr Frísk var klárað.
Að öðru leyti skýrir taflan sig sjálf en ég get ekki látið hjá líða að minnast á nautið Kaðal 94017 frá Miklagarði í Dalasýslu. Árið 2001 eru sendir út 4.042 skammtar úr því nauti og er það mesta útsending úr einu nauti á ári á þessu tímabili (Soldán 95010 er þar rétt á eftir með 3.903 skammta). Áhrif Kaðals eiga eftir að verða mikil því yfir 20 naut komu hingað á stöðina undan honum og eru synir hans komnir í notkun og hafa þrír þeirra nú þegar hlotið dóm sem nautsfeður en það eru þeir Spotti 01028 frá Brúnastöðum, Alfons 02008 frá Deildartungu og Skurður 02012 frá Stóru-Mörk. Þá eru dætur Kaðals þegar orðnar áberandi í hópi nautsmæðra.
Þann fyrirvara verður að setja við svona samantekt að ekki er víst að öll þessi naut hafi gefið alla þá skammta sem eftir var leitað og það hefur eðlilega áhrif á „vinsældir“ þeirra.
Sveinbjörn Eyjólfsson“