Vitund um vinnuvernd í landbúnaði
Guðmundur Hallgrímsson hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands á Hvanneyri hefur unnið sem verkefnastjóri að skipulagi og framkvæmd vinnuverndarverkefnis og mun heimsækja bændur á Suðurlandi nú í vetur í samvinnu við Búnaðarsamband Suðurlands.
Markmið vinnuverndarverkefnisins er að fækka slysum í landbúnaði og stuðla að
góðu vinnuumhverfi og bættri ásýnd bæja. Verkefninu er ætlað að koma til viðbótar þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt lögum og reglugerðum. Tilgangur heimsóknarinnar er ekki eftirlit heldur að aðstoða bændur við að gera betur í öryggis- og vinnuverndarmálum á búinu. Í heimsókninni verður farið yfir öryggismál á búinu og bændur svara
spurningalista sem lagður verður fyrir þá. Farið verður yfir gátlista og helstu þættir á búinu sem skipta máli m.t.t. öryggis- og vinnuverndarsjónarmiða skoðaðir með bændunum. Tillögur til úrbóta verða ræddar við bóndann og sett markmið um viðbrögð.
Hitamyndavél er notuð til þess að meta ástand á raflögnum. Algengasta ástæða bruna í útihúsum má rekja til rafmagns. Verkefnið hefur verið styrkt af Framleiðnisjóði, Bændasamtökunum og búnaðarsamböndum. Tryggingafélögin hafa auk þess tekið vel í að styrkja verkefnið.
Æskilegt væri ef búnaðarfélögin myndu taka þátt í þessu verkefni og skipuleggja heimsóknir heimafyrir til að minnka ferðakostnað.
Þeir bændur og eða formenn búnaðarfélaga sem áhuga hafa á að taka þátt í þessu verkefni hafi samband við Svein Sigurmundsson hjá BSSL (sveinn@bssl.is) eða í síma 480 1800.