Yfirlit um stöðu mála
Dregið hefur úr gosinu og nær gosmökkurinn nú í 3-6 km hæð. Gjóskuframleiðsla hefur að sama skapi minnkað mikið en hins vegar hefur gríðarlegt magn af ösku fallið á landið og er ennþá í háloftunum. Gosið í Grímsvötnum er samkvæmt mati vísindamanna af sömu stærðargráðu og dæmigert Kötlugos. Strax fyrsta sólarhringinn í þessu gosi var öskufallið orðið jafnmikið og í öllu eldgosinu í Eyjafjallajökli. Öskufall er nú minna á Kirkjubæjaklaustri og nærsveitum en aftur móti töluvert þar fyrir austan, í Fljótshverfi og Öræfum. Ólíklegt er talið að gosið breyttist í hraungos þar sem stöðug vatnsáveita er inn í gíginn nema því aðeins að það dragist á langinn. Til þess að minnka öskufall og hefta öskufok þyrfti almennilegt slagveður. Útlit er fyrir rigningu suðaustanlands á föstudag.
Ráðunautar Búnaðarsambandsins hafa í dag verið að kanna stöðu mála hjá einstökum bændum og munu halda því áfram á morgun auk þess að verða á svæðinu næstu daga. Ástand búfjár á svæðinu er í heildina gott og langflestir hafa náð að gæta að sínu fé, koma því á hús eða aðhald þar sem hægara er um vik að brynna því og gefa ómengað fóður.
Fóðurforði er í langflestum tilvikum nægur og í heildina er nægt fóður á svæðinu nema því aðeins að öskufall verði langvarandi.
Margir hafa boðið fram aðstoð sína fyrir utan þá miklu aðstoð sem björgunarsveitarmenn hafa veitt. T.d. er von á fimm verknemum frá Landbúnaðarháskólanum en þeir eru þaulvanir sveitastörfum og bjóða bændum aðstoð sína.
Flúorinnihald í öskunni er sem betur fer lítið samkvæmt greiningum frá Jarðvísindastofnun HÍ og mun tæpast aukast svo neinu nemi meðan að vatn umlykur eldstöðina. Flúor í öskunni er vel innan við hættumörk fyrir búfénað þó gæta þurfi að ef rignir að búfé drekki ekki úr öskumenguðum pollum sem gætu hugsanlega innihaldið mikinn flúor.
Búnaðarsambandið vinnur nú ásamt Landbúnaðarháskólanum og Matvælastofnun að skipulegri gróðursýnatöku til að kanna hugsanlegt innihald skaðlegra efna í og á gróðri. Niðurstöður verða birtar strax og þær liggja fyrir.