YFIRLÝSING VEGNA UMMÆLA LANDGRÆÐSLUSTJÓRA

Á stjórnarfundi Búnaðarsambands Suðurlands þann 11. júní sl. var til umræðu ummæli landgræðslustjóra um að banna ætti lausagöngu búfjár. Stjórnin tekur undir svohljóðandi yfirlýsingu Bændasamtaka Íslands og landssamtaka sauðfjárbænda.

„Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands harma þessi ummæli enda eru þau til þess fallin að mynda gjá milli bænda og Landgræðslunnar. Samstarf Landgræðslunnar og bænda byggir á gömlum merg og hefur eflst mjög á undanförnum áratugum. Unnið er sameiginlega að mörgum góðum verkefnum eins og verkefninu Bændur græða landið, verkefnum innan Landbótasjóðs og Grólind átaksverkefni um kortlagningu gróðurauðlindarinnar sem fjármagnað er í gegnum búvörusamninga.  Bændur leggja árlega fram gríðarmikla vinnu við landgræðsluverkefni.  Landgræðslan hefur stutt mörg þeirra með áburðarkaupum en bændur leggja fram vinnu og tækjabúnað án nokkurrar þóknunar. Ljóst er að með þessum ummælum hefur Landgræðslustjóri skaðað það gagnkvæma traust sem byggst hefur upp í samstarfinu.  Óhjákvæmilegt er annað en að fara yfir framkvæmd og fjármögnun þessara verkefna með stjórnvöldum.“


back to top